Tímarit Máls og menningar - 01.06.2017, Blaðsíða 74
74 TMM 2017 · 2
Arnar Már Arngrímsson
Berskjalda
Hér er á ferðinni texti sem eitt sinn var erindi haldið á baráttudegi kvenna 8. mars á
Akureyri. Yfirskrift fundarins var Líðan ungs fólks. Þetta er ekki góður texti; það er
augljóst að rithöfundurinn hefur lotið í lægra haldi fyrir föðurnum og kennaranum.
Beðist er afsökunar á því. Erindið var hins vegar brilljant en vonandi eru engar upp-
tökur til því til sönnunar.
1
Við höfum hleypt níðingi inn í barnaherbergið. Hann segir okkur að rétta
tveggja ári barni spjaldtölvu, gefa því i-phone þegar það er fjögurra ára.
Hann kennir þeim allskonar frábært eins og að vera falleg og stælt og hár-
laus og sexí og panta frá Kína og vera svöl og umfram allt hress. Níðingurinn
ber mörg nöfn, sumir kalla hann ameríska daga og nammibarinn, eða Black
Friday eða verslunarmannahelgi eða youporn eða sólarhringsopnun eða
yellow eða ofurorkutilboð eða smálán eða einfaldlega heimskapítalismann.
Níðingurinn er búinn að tjóðra barnið niðri í alheimskjallara netsins og
hvíslar að því allan sólarhringinn.
Við þurfum víst bara að kenna börnunum að umgangast níðingana. Aldr-
ei, aldrei má ganga á rétt níðingsins, hann er í raun alveg frábær, sko, alltaf að
finna upp á einhverju sniðugu. Og hann er mjög sjaldan að káfa á börnum,
sko. Honum finnst best að hvísla að þeim hvernig þau eigi að líta út, hvað þau
eigi að kaupa, að þau eigi að vera falleg og smurð eins og hjól efnahagslífsins
og umfram allt að þau megi ekki verða gömul, allavega ekki þið stelpur, plís
ekki verða gamlar og ljótar, valið er þitt, ekki gefast upp, það er til dæmis
þetta anti-aging krem og hei, ekki hugsa eitthvað leiðinlegt eins og um
ástand jarðarinnar eða dauðann, eða ömmu og afa rotnandi innanum bækur
og kleinur. Gleymdu orðum eins og virðing og umhyggja og kærleikur og
auðmýkt og friðsæld og fórnfýsi og samlíðan. Einu orðin sem skipta máli eru
virk samkeppni og hagvöxtur.