Tímarit Máls og menningar - 01.06.2017, Blaðsíða 10
S o f f í a B j a r n a d ó t t i r
10 TMM 2017 · 2
sögunnar huga sem er tvíkynja. Líkami og þar með kyn sem og kynhneigð
Orlando breytist eftir því á hvaða öld hann/hún lifir. Mörk andstæðuparsins
karl og kona máttu og mega gjarnan leysast upp fyrir mér í veröldinni eins og
í skáldverkinu Orlando. Af hverju var líkaminn þá svona heilagur? Við erum
auðvitað ekkert annað en líkami. Eða hvað? Hugsanir, tilfinningar, hvatir,
minningar, saga. Allt býr í líkamanum. Í það minnsta birtumst við hér á
jörðu, í heiminum, sem vera í líkama. Með skynjun á þessum heimi, sem við
birtumst í, yfirstígur líkaminn aðskilnað líkama og sálar. Líkaminn skapar
okkur aðstæður þar sem frelsi og nauðung takast á. Þar er einnig hægt að
lokast af. En hugmyndir okkar geta verið eins og steypuklumpur sem hefur
verið komið fyrir í heilaberkinum. Íþyngjandi og meiðandi. Áður hafði
sonur minn grátið í eldhúsinu mínu, þegar ég reyndi að aftra honum frá
því að fara í hormónameðferðina, og með andlitið í höndum sér sagði hann
grátandi: „Viltu ekki að ég sé hamingjusamur?“ – Auðvitað vildi ég ekkert
heitar en að sjá hann hamingjusaman. Barnið mitt. Ég var líklega maríneruð
af melankólíu og ótta. Þessi plássfreku skrímsli tilvistarinnar. Ég var hrædd
um hann. Hann er viðkvæm jurt með sérstakt taugakerfi, sterka skynjun.
Ég var einnig upptekin af sannleika og lygi. Að það væri til ómengaður
sannleikur um manneskjuna. Er þetta satt? Er það satt að hann sé strákur
þegar hann fæddist í stelpulíkama? hugsaði ég á brautum þráhyggjunnar.
Skiptir sannleikurinn máli? Að sjálfsögðu skiptir það máli hver við erum og
hvernig við skynjum veru okkar í heiminum. Það er ekki einungis líkaminn
sem gerir þennan skýra greinarmun á karl- og kvenkyni heldur ekki síst
tungumálið. Í tungumálinu verður gjáin að djúpi. Sér í lagi í þessu kynjaða
tungumáli sem íslenskan er. Nær hver einasta setning er kynjuð. Þú ávarpar
sjaldan manneskju án þess að kynja hana um leið og staðfesta þar með kyn
hennar. En spurningin er hvort það sé til fastur kynjaður kjarni þegar kemur
að manneskjunni sjálfri, burtséð frá tungumáli og líkama. Erum við eitthvað
annað en líkami okkar? Og hvað með orðin sem ljóðmælandi í ljóði Sigfúsar
Daðasonar biður okkur að fara varlega með því þau geti sprungið? Það var
upphaflega í tungumálinu að stríðið hófst á heimilinu. Hann tók upp karl-
mannsnafn og gróf kvenmannsnafnið. Við skírðum hann Evu. Því hann
var kona. Fyrsta konan, hugsaði Jesústelpan sem býr innra með mér. Hann
er ekki Eva. Hann er Emil. Á tímabili var ég svo ringluð að ég var farin að
ávarpa bæði börn mín í karlkyni, þó að ég hafi einungis fætt börn í stúlku-
líkama inn í þennan heim. Þetta átti sér stað á meðan tungumál móðurinnar
í mér var að brjótast úr hlekkjunum. Ég var ávallt leiðrétt. Fyrst með þjósti,
já, í dágóðan tíma olli þetta spennu og sársauka, en að lokum með húmor.
Yngra barnið, dóttir mín, tók þessu tungumálaflökti móður sinnar ávallt
með stóískri ró. Þegar ég ávarpaði hana í karlkyni: „Ertu svangur, elskan?“
svaraði hún eins og zen-meistari: „Nei, ég er ekki svangur en ég gæti mögu-
lega verið svöng.“
Lengi vel var ég handviss um að væntanleg kynleiðrétting væri þráhyggja.