Tímarit Máls og menningar - 01.06.2017, Blaðsíða 66
O d d n ý E i r Æ va r s d ó t t i r
66 TMM 2017 · 2
5. J.D. /Antonin Artaud
Einu sinni ritstýrði ég bók sem heitir Hvað er heimspeki? Við tókum okkur
til nokkrir heimspekinemar með aðstoð kennara og þýddum nokkrar
grundvallargreinar erlendrar samtíma- og meginlandsheimspeki sem við
töldum að væri algjört möst að lesa. Ég rak á eftir samnemendum mínum og
greinarnar voru á góðri leið með að umorðast á íslensku okkur til óendan-
legrar ánægju: Hin fjarlæga hugsun varð manni mun nánari. Og heim-
spekikennararnir lásu yfir og samræðan var gefandi. En áður en yfir lauk
fór ég utan til náms og afhenti öðrum ritstjórnarsvipuna. Þá var komið að
því að ég skyldi skila minni grein á réttum tíma. Ég kepptist við að klára en
tölvunni minni var stolið og ekkert afrit svo ég byrjaði upp á nýtt. Það var
eins og ekkert sæti eftir í minninu, ég mundi ekki eina einustu setningu á
íslensku þegar ég las greinina aftur yfir. Sérkennilegt. Er þýðing á öðrum
stað í minninu? Ég valdi aðra grein eftir sama höfund. Þóttist góð því það
var miklu betri grein, birti kjarna hugsunar höfundarins skýrar. En ég held
ég hefði kannski ekki getað valið erfiðari grein. Á spássíunni er texti eftir
Michel Leiris, álíka erfiður. Ég var í tímum hjá Jacques Derrida og fannst
erindi hans öll vera óendanlega skýrandi og afhjúpandi, mér fannst ég heyra
hjartslátt allrar hugsunar æ greinilegar. En þótt ég sæti svo í mánuð nótt og
dag í einangrun í kastala úti í sveit í Frakklandi með orðabók og orðsifja-
fræðing til taks, þá náði ég ekki að skila þýðingunni á réttum tíma, ég var
aldrei örugg um merkinguna. Ég fjarlægðist kjarnann því oftar sem ég fletti
upp í orðabók. Svipuhöggin dundu á mér og ég missti af því að vera með í
bókinni sem ég hafði verið driffjöður í að gefa út. Í sárabætur ákvað ég að
birta greinina í öskju með fleiri esseyjum sem við bróðir minn ætluðum að
gefa út í nafni Apaflösu. Ég hafði samband við Éditions de Minuit sem hafði
gefið út bókina og keypti útgáfuréttinn á formálanum, ég man það voru
rúmar þrjátíuþúsund krónur en það var einn þriðji af mánaðarframfærslu
minni. Enn áforma ég útgáfu greinarinnar því nýlega fann ég þýðinguna á
gömlum flakkara. Mig langar til að birta hér nokkrar setningar úr neðan-
málsgrein Derrida við greinina, þar vísar hann meðal annars til Antonins
Artaud en hann var nokkuð geggjaður hugsuður eða skáld, leikhúsmaður,
kannski bara í alvörunni geggjaður, hvað sem það nú þýðir. Ég leyfi mér að
klippa textann upp með þrípunktum … Þar með er þetta að verða að ljóði
eftir mig í staðinn fyrir að vera þýðing á heimspeki. Til bráðabirgða. Bið höf-
undana velvirðingar á ofbeldinu, blessuð sé minning þeirra.
6. Ady Endre
Ég fór að læra ungversku meðal annars til að geta þýtt ódauðleg ljóð og
önnur skrif þessa ungverska ljóðskálds, ritstjóra og þýðanda en náði aldrei
nógu langt til þess, tungumálið er of flókið og hugleysi mitt of mikið. En ég