Tímarit Máls og menningar - 01.06.2017, Blaðsíða 109
To l s t o j e ð a M a j a k o v s k i j
TMM 2017 · 2 109
bregðast við henni, taka við henni fúslega eða með semingi ellegar hafna
henni að nokkru eða öllu leyti. Af þeirri glímu eru margar og miklar og
ólíkar sögur. En sjálf þessi átök náðu djúpt að hjartarótum hvers og eins
vegna þess að öll höfðu skáldin, hvað sem síðar varð, reynt á sjálfum sér,
bæði í von og ótta, þá hugljómun sem fylgir því að nú skal öllu því sem
gamalt er, spillt og ranglátt á eld kastað og nú skal allt nýtt, réttlátt og hreint.
William Wordsworth var ungt breskt skáld á dögum frönsku byltingarinnar.
Hann varð fyrir vonbrigðum með hana eins og vonlegt var, en þegar hann
horfir um öxl fimmtán árum eftir að hún hófst segir hann:
Bliss was in that dawn to be alive
but to be young was very heaven
Í þeirri dögun var sælt að vera til en himnaríkið sjálf að vera ungur og eiga
von á því að við „munum loks finna gæfuna hér og nú á þessari jörð eða
alls ekki“, en þau eru lokaorð kvæðisins. Hugsa má í samanburði til jafn
„ópólitísks“ skálds og Borisar Pasternaks sem ávarpar byltingu í eigin landi
með þessum orðum á 25 ára afmæli hennar:
Rétt sem þá, fyrir fjórðungi aldar
við dagsbrún þegar allt varð líklegt
varpar þú yfir mitt ævikvöld
gullnum ljóma hins mikla upphafs.
Það er svo sjálf hin volduga og lífseiga rússneska trú á mikilvægi bókmennta
sem gerir þær fyrr og síðar að sjálfsögðu umræðuefni í tengslum við hvaðeina
sem gerðist í samanlagðri sögu Sovétríkjanna. Hvort sem valdhafar notuðu
þær til að renna fleiri stoðum undir vald sitt og stefnu eða skáldin fundu
sér smugu til að koma að þeirri gagnrýni á samtíma sinn sem þau töldu
brýnasta. Bókmenntir höfðu sitt að segja um hrifningu ungrar byltingar-
kynslóðar af „hinu mikla upphafi“ sem Pasternak orti um. Þær kyntu undir
bjartsýnni tæknihyggju sem fékk nýja kynslóð sovétborgara til að leggja sig
fram í þeirri iðnvæðingu og framkvæmdakappi sem varð helsta áróðursvopn
Stalíns og hans manna á fjórða áratugnum þegar Vesturlönd voru flest illa
haldin af mikilli efnahagskreppu. Þær hjálpuðu til við að styrkja tengslin
milli sovéskrar stórveldisstefnu og rússneskrar þjóðernishyggju. Eins og
Alexej Tolstoj gerði, höfundur sem lagt hafði hvítliðum lið í borgarastyrjöld-
inni eftir byltingu. Hann fór síðan í útlegð en sneri heim aftur og skrifaði
sjálfan sig í sátt við byltinguna með sögulegri skáldsögu um Pétur mikla. Þar
dregur hann fram beint og óbeint hliðstæður milli Stalíns og Péturs keisara:
báðir beittu hörku og grimmd til að gjörbreyta því Rússlandi sem var og
niðurstaðan er sú að aðeins með þeim hætti verði Rússlandi breytt og það
gert að öflugu heimsveldi.
Ferill sumra frægra höfunda í þessari sögu var einkennilegur. Maxím
Gorkij var þegar um aldamótin 1900 frægur og vinsæll, ekki síst fyrir sögur