Tímarit Máls og menningar - 01.06.2017, Blaðsíða 76
A r n a r M á r A r n g r í m s s o n
76 TMM 2017 · 2
og heimilisveggja eða virkisveggja
er hugurinn alltaf óvarinn
sem ef til vill mætti líkja við það
að við þyrftum að lifa með iðrin úti.
Allavega:
þótt höfuð sé kannski betra en ekkert
á hugur manns í raun engan samastað.
„Við erum mikið til hugur“. En hugurinn og sálin er aldrei á dagskrá nema
þegar eitthvert okkar týnist.
Um daginn var ég staddur í Helsinki og gekk klukkustundum saman
um borgina. Allar kirkjur voru opnar og víða sátu menn og áttu stund
með sjálfum sér. Þar er meira að segja kirkja eða kyrrðarhof þar sem engar
athafnir eru haldnar, engin trúartákn hanga á veggjum. Bara staður þar sem
menn leita friðar.
Kirkja og trú, þetta er orðið hálf vandræðalegt. Það má bara leggjast á bæn
ef þú ert íþróttamaður. Þar heitir það líklega sjálfstal og er talið hið besta
mál. Silfurdrengirnir í Peking voru ekki frábærir í handbolta, þeir höfðu lært
af Ólafi Stefánssyni að íþróttamaðurinn er mikið til hugur.
Tilraunir okkar til að hafa jákvæð áhrif á börn og unglinga eru andvana
fæddar, í besta falli máttlausar. Seglar með slagorðum á ísskápa, heimsókn
forvarnarfulltrúa, fermingarfræðsla og mætingaskylda í messur, uppbyggi-
legar bækur í jólagjöf sem enginn les sem á þarf að halda. Hvað dugar það
gegn alþjóðasamtökum níðinga? Við getum endalaust troðið verkefnum á
skólana og eflaust unnið þrekvirki, en hvað er skólinn stór hluti af árinu? 170
dagar, 4-6 tímar á dag. Kannski 1000 klukkutímar. Þúsund skitnir klukku-
tímar þar sem uppeldi og mótun fer fram og andófið og hið góða og mikil-
væga er sett á dagskrá. Ætti að vera á dagskrá. Níðingurinn fær úthlutað 365
dögum á ári, 16 tíma á dag og hann hikar ekki við að narta í þessa skitnu
1000 tíma. Það er hann sem virkilega mótar sálarlíf barna, og auðvitað
okkar um leið. „Vertu sæt,“ hvíslar hann, „vertu frægur, kauptu, kauptu!
Skólinn er þvættingur, fullorðnir gera allt leiðinlegt, bækur eru gamaldags,
gefðu fermingarbarninu dróna, umhverfisvernd kemur þér ekki við, lifðu,
lifðu núna!“ Þessi rödd fær 5840 klukkutíma á ári til að móta barnshugann.
Skólinn fær 1000.
Hugurinn er baðaður myndum allan daginn. Myndafantasíu sem rekur
flein á milli okkar og veruleikans. Og hugurinn er aldrei settur á dagskrá
nema um seinan. Hann lendir á villigötum þunglyndis og kvíða og síðan
kannski, þegar hann er 14 eða 17 ákveður hann að skera sig, eða svelta sig
eða drepa sig eða kannski hefur hann vit á því að fara til sálfræðings. Bara