Tímarit Máls og menningar - 01.12.2016, Blaðsíða 62
Á s t r á ð u r E y s t e i n s s o n
62 TMM 2016 · 4
eru mörk tilverustiga dregin æ og aftur en með mismunandi hætti í skáld-
sögunni og færast frá myndinni af þorpinu, hæðinni og höllinni inn í hin
lokuðu rými, húsakynni, þar sem stundum „sést ljós og maður í því“, en
svo er eins og hann sökkvi í framandleikann. Það væri rannsóknarefni út af
fyrir sig, einskonar mælingavinna, að kortleggja húsakynnin í sögunni, en
þar er farið á milli tveggja veitinga- og gistihúsa, skólabyggingar, skrifstofa
og einkaheimila – en jafnframt eru mörk einkalífs, atvinnu og valdastofnana
stöðugt brotin niður. Sveitarstjórinn er rúmfastur heima hjá sér þegar hann
tekur á móti K. til að ræða starfsráðningu hans, en sjálfur sofnar K. síðar
sitjandi í rúmi ritara nokkurs sem þylur yfir honum smáatriði málsmeð-
ferðar.
Er ratljóst?
K. er örmagna, enda er hann stöðugt á ráfi á milli staða í þorpinu, ferða-
langur sem fyrr, og þreytan er raunar ákveðið stef í verkinu. En það er
þrautseigjan líka og ljóst er að K. leggur allt kapp á að komast til hallarinnar.
Honum gengur illa að nálgast hana eftir götum þorpsins – að lokum reynist
snjórinn honum ofviða og hann situr beinlínis fastur í honum (19) – þann-
ig að hann ákveður að nýta sér sendiboðann Barnabas og fylgir honum
með erfiðismunum í ferð sem hann telur að muni enda í höllinni. En þessi
sendiboði „guðanna“ er enginn Hermes og ekki er fullljóst hvort hann hefur
sjálfur nokkurn tíma stigið inn fyrir raunverulegan þröskuld hallarinnar,
enda sætir fjölskylda hans útskúfun eftir að önnur systir hans, Amalía,
hafði þótt sýna dónaskap er hún hafnaði tilmælum frá einum af embættis-
mönnum hallarinnar sem hafði fengið á henni augastað.
Þannig teflir Kafka saman heimum í sögu sinni. K. er „afvegaleiddur“ og
í stað þess að komast til hallarinnar heimsækir hann og kynnist þessari fjöl-
skyldu sem þola verður einangrun í þorpinu og aðrir hafa skömm á. Hann
gefst þó ekki upp á sínu óljósa hallarerindi og eyðir mikilli orku í að reyna að
nálgast yfirmann sinn, Klamm að nafni. Þeir lesendur sem héldu að Kafka
væri með nafninu „K.“ eingöngu að vísa með kaldhæðnum eða gaman-
sömum hætti á sjálfan sig sem höfund, sjá nú nýtt tákngildi í bókstafnum.
K. vill komast í tæri við Klamm. Stúlka sem starfar í veitingahúsinu Herra-
garðinum, Fríða að nafni, leyfir honum raunar náðarsamlegast að kíkja á
Klamm í gegnum gægjugat (52) – maðurinn sem sést kallast í huga lesanda
á við áðurnefnda mannsmynd hallarinnar. Síðar í sögunni eiga fleiri eftir
að reyna að koma auga á Klamm í gegnum skráargat (146–147) – og á þýsku
merkir nafnorðið „Klamm“ reyndar þröngt gljúfur. Leiðin er ekki greið, en
þegar Fríða tjáir K. að hún sé ástkona þessa mikilvæga manns, líður ekki á
löngu áður en hún og K. hvíla í faðmlögum undir barborðinu. Á sinn hátt
stígur K. með þessu skref í átt til Klamms, en Fríða er að fara í hina áttina og