Tímarit Máls og menningar - 01.12.2016, Blaðsíða 121
„ A l l t a f h á l f o p n a r d y r“
TMM 2016 · 4 121
að samtímamönnum mínum. Sófókles er samtímamaður minn sem lesanda,
Snorri Sturluson, Diderot, Baudelaire.
Þannig að fáfengilegt kynslóðatal í sjálfhverfum fjölmiðlamönnum skiptir
engu máli í samanburði við þennan stórkostlega sannleika: bókmenntatexti
sem er sígildur er sígildur, ef ekki bara eilífur.
Ég veit að ég ætti kannski ekki að spyrja um áhrif ákveðinna skálda eða
rithöfunda á þín skrif og þína hugsun því ég geri mér grein fyrir að áhrif
eru oft ómeðvituð. Eitthvað sem maður gerir sér kannski ekki alveg grein
fyrir og verður ekki „resúmerað“ svo við höldum áfram að vinna með
það orð. En ég get samt ekki setið á mér að spyrja, og þá óháð straumum
eða stefnum. Ertu þér meðvitaður um einhverja áhrifavalda, eða ætti ég
kannski frekar að nota orðið bakland?
Já bakland hugnast mér betur. Andleg fjölskylda. Hún er fjölmenn. Tökum
eitt dæmi af mörgum mögulegum: Octavio Paz, bæði ljóð og esseyjur, rit-
gerðarsafnið hans L’autre voix (á frummálinu La otra voz, á ensku The Other
Voice) er algjört meistaraverk um nútímaljóðlist. Annað ritgerðasafn hans
ekki síðra, La flamme double (La llama doble) – um ást og erótík. Paz er einn
af þeim sem ég hef lengi dáð, einn af stórfjölskyldunni sem maður velur sér.
Mig minnir sterklega að Milan Kundera tali um það einhvers staðar að við
veljum okkur ekki foreldra, systkini, fjölskyldu í raunveruleikanum, en það
gerum við sem listamenn; við veljum okkur andlega fjölskyldu. (Nú finn ég
ekki neins staðar þennan þanka hjá Kundera, hefur mig dreymt þetta eða hef
ég sjálfur hugsað þetta …?)
Nú, svo er það spurningin, hefur Paz haft áhrif á það sem ég skrifa? Það
hef ég ekki hugmynd um. Ég sé það ekki í fljótu bragði, a.m.k. ekki aug-
ljóslega. Hins vegar er Paz, svo og fleiri höfundar sem ég hef hrifist af á
ákveðnum tímabilum, einhvers konar viðmið. Ég stilli þeim upp eða þeir
stilla sér upp einhvers staðar í hugarlandslaginu. Þeir eru útverðir í því túni
sem ég er að rækta, ég veit af þeim og hugsa til þeirra. Ég ætla mér ekki að
fara inn á þeirra svæði, einmitt ekki, ég passa mig á því en þeir eru þarna allt
um kring, í öllum áttum eins og varðmenn og þeir gæta mín. Þeir eru viðmið
þess svæðis sem ég er að reyna að rækta.
Ég get nefnt marga fleiri meðlimi minnar andlegu fjölskyldu, byrja á þeim
sem hafa verið það mjög lengi, ég hef keypt og lesið allt sem þeir hafa gefið út
jafnharðan. Kenneth White, ljóð og ritgerðir. Patrick Modiano, skáldsögur.
Hef lengi haft bróðurtilfinningu gagnvart honum enda er hann fæddur 30.
júlí, sama dag og ég, þremur árum áður. Philippe Sollers, ritgerðir og skáld-
sögur. Bernard-Henri Lévy, ritgerðir, skáldsögur. Marc-Alain Ouaknin,
ritgerðir. Chantal Thomas, ritgerðir, sögur. Julia Kristeva, ritgerðir aðallega,
Jean Baudrillard, ritgerðir, Emmanuel Lévinas, ritgerðir. Paul Auster, skáld-
sögur og ritgerðir, Haruki Murakami, skáldsögur.