Tímarit Máls og menningar - 01.12.2016, Blaðsíða 84
K r i s t í n E i r í k s d ó t t i r
84 TMM 2016 · 4
Kvikmyndaleikstjórinn biður Elínu um að koma heim til sín með nashyrn-
ingshornið. Hún segir honum að þannig gangi það ekki fyrir sig en að hann
geti sótt hornið til hennar þegar honum sýnist, vegna þess að það er tilbúið.
Þá segist hann ætla að bera svolítið undir hana.
Þetta er fyrsta kvikmyndin hans í fullri lengd og í fyrsta skipti sem Elín
vinnur fyrir hann. Hún er búin að lesa handritið og finnst það ágætt, svo-
lítið dæmigerð norræn sakamálamynd en það er allt í lagi. Það eru kannski
nokkur atriði í framvindunni sem trufla hana en hún er yfirleitt ekki spurð
álits og hefur heldur enga sérstaka þörf fyrir að deila því.
Hann býr á Arnarnesi, í fokheldu einbýlishúsi næst sjónum. Hann er um
fertugt og á tvö lítil börn með vinsælli gamanleikkonu. Þau setjast við glugg-
ann, þar sem útsýni er yfir hafið. Gólfið er þakið pappa, til að verja það fyrir
ágangi smiða sjálfsagt. Á vegg eru nokkrar litaprufur. Nokkrir okkurgulir
tónar. Hann vefur hornið úr klæðinu og leggur það á borðið á milli þeirra.
Stórkostlegt, segir hann undrandi og rennir fingri eftir hrufóttri áferð inni.
En hvað vildirðu ræða? spyr Elín og eitt augnablik hvarflar að henni að
hann vanti ráðleggingar varðandi húsið sitt. Að kannski eigi hún að velja
rétta okkurgula tóninn á stofuvegginn.
Hann verður vandræðalegur.
Framleiðandinn er með svolítið vesen, segir hann og Elínu léttir.
Móðirin, heldur hann áfram. Persónan þykir ekki nógu trúverðug og ég
fékk nokkrar ábendingar frá handritalækninum. Ég er semsagt að vinna í
þessari persónu og við ákváðum að hafa hana með ör, þú veist, í andlitinu.
Og þá datt okkur í hug, datt mér í hug að hún er líka á svipuðum aldri og
þú … Og hvort að ég mætti spyrja þig nokkurra spurninga um … bara
hvernig er að vera þú?
Hann er með óheppilegt höfuðlag. Eins og flúðasveppur. Andlitið er á stilk-
inum og ennið ætlar engan enda að taka, sést varla í augun á honum fyrir
þessu enni. Elín man allt í einu eftir ferðalagi sem hún fór í fyrir mörgum
árum síðan, til Búrma.
Hún man að hafa setið með grasalækni í tjaldinu hans. Læknirinn var
klæddur í mynstrað síðpils og bringa hans og handleggir voru þakin agnar-
smáum bambushúðflúrum. Hann sargaði með brauðhnífi í apabein yfir
potti. Umhverfis hann voru skeljar og skordýr og þurrkaðar plöntur. Hjá
honum sat ung kona með hvítmálað enni og kinnar. Litli strákurinn hennar
var með magakveisu og grét sáran.
Hann talaði hratt og leiðsögumaðurinn þýddi fyrir Elínu jafnóðum.
Læknirinn sagði frá húðflúrunum sínum, sem innfæddir þekktu ættbálkana
af. Hann útskýrði að sjálfur væri hann af Mon ættbálkinum eins og flestir
í þorpinu hans. Leiðsögumaðurinn var líka Mon. Elín spurði um Wa fólkið
en hún mundi að hafa lesið að sá ættbálkur hefði stundað hausaveiðar lengi
og að fyrir hvert höfuð sem Wa-maður veiddi fengi hann sérstakt húðflúr.