Tímarit Máls og menningar - 01.12.2016, Blaðsíða 106
S i g r í ð u r A l b e r t s d ó t t i r
106 TMM 2016 · 4
Talandi um skipulag þá segir þú í óbirtu viðtali við Sif Jóhannsdóttur:
„Skipulag hefur lengi verið á dagskrá hjá mér í ljóðabókunum. En það er
skipulag sem er alls ekki að leitast við að búa til „lífræna heild“ eins og
köttur til dæmis er lífræn heild sem ekki er hægt að slíta í sundur. Ég hef
alltaf leitast við að búa til vettvang dýnamískra átaka í ljóðabókunum,
milli annars vegar kosmos og kaos; það er alltaf mikill kraftur sem vill
búa til skipulag … o.s.frv.“ Ég spyr: Hvaðan sprettur þessi kraftur? Tengist
hann náttúrunni á einhvern hátt?
Já, ég held ég verði að segja það. Það er talsvert síðan ég gerði mér grein
fyrir því hvað umhverfið á Skinnastað er mikilvægur hluti af því sem kalla
mætti vitundargrunn minn, hvað þetta umhverfi er mikilvæg staðsetning
innra með mér, dýpsta staðsetning, frumstaður með mikilvægum sjón-
deildarhring. Annars vegar er þetta einhver gróðursælasta sveit sem um
getur, hins vegar eru svartir sandar, vitnisburður um eyðingarafl Jökulsár
á Fjöllum. Sjóndeildarhringurinn skiptist milli þessarar gróðursældar og
hinna svörtu sanda. Fjallahringurinn er svo bakatil í huganum en ég held að
aðalatriðið sé þessar óhemjusterku andstæður. Andstæður sem mér finnst
ég hafa skynjað mjög sterkt alla tíð, alveg frá upphafi. Ég vissi ekki af því
fyrr en fyrir allnokkrum árum þegar ég fór að velta þessu fyrir mér og þetta
vitraðist mér sem algjört lykilatriði. Þarna er sjóndeildinni skipt í kosmos og
kaos, þeir félagar eru þarna skýrir og ljósir hverjum þeim sem vill lesa. Og
þessi sjóndeild er frumteikningin að hugarheimi mínum.
Já einmitt. Tengsl ljóðmælanda og náttúru eru mjög sterk, samspil manns
og náttúru og víða eru fyrirbærin ávörpuð í spjalltóni,6 sbr. „Gamla fíkjutré/
Þetta ávarp mitt er bæði ávarp/og andvarp“7 eins og segir í upphafi ljóðsins „Í
borgarfrumskógi III“ í Ljóðlínuspili …
Ávarp finnst mér svolítið skemmtileg stelling, örlítið hátíðleg, á sama hátt
og afmælisbörn og heiðursgestir eru ávarpaðir. Þess vegna fór ég að ávarpa
ýmsa hluti og fyrirbæri, aðallega tré, beinlínis þeim til heiðurs. Á öðrum
stað í Ljóðlínuspili segir: „Trjálaus erum við tóm“8 Þetta meina ég algjörlega,
eiginlega bókstaflega.
Í þessu samhengi kemur mér í huga ljóðið „Skógur/Tré II“ úr sömu bók en
það hljóðar svo í heild sinni:
Hönd mannsins er ekki
Rót meinsins
Hönd mannsins kann að hlúa að
Kann að höggva
Í skóglausu landi eigrar
Handalaus maðurinn9