Tímarit Máls og menningar - 01.12.2016, Blaðsíða 46
R ú n a r H e l g i Vi g n i s s o n
46 TMM 2016 · 4
Friedman útskýrði hvernig fyrirkomulagið væri. Það væri enginn mat-
seðill heldur væru bara tveir réttir á boðstólum, súpa og aðalréttur. Hann
útlistaði síðan hvað væri í réttunum.
„Döðlur?“ sagði mamman.
„Já, þær eru góðar fyrir heilann,“ sagði Friedman.
„Ég er heilalaus,“ sagði pabbinn þá og hló við.
„Það er gott,“ sagði Friedman grafalvarlegur.
Hann sagði þeim síðan að boðið væri upp á tvær skammtastærðir, fullan
skammt og minnkaðan skammt. Honum væri mjög illa við að henda mat og
því yrði enginn eftirréttur nema þau lykju við matinn sinn.
„Hvað er langt síðan þú borðaðir?“ spurði Friedman eldri strákinn.
„Svona tveir tímar.“
„Það er of stutt,“ sagði Friedman. Þau ákváðu þá að fá minni skammtinn
handa strákunum, mamman fékk líka minnkaðan skammt en pabbinn
fullan skammt.
Ungi þjónninn kom að vörmu spori með súpuna, hvíta og alveg þokkalega
á bragðið. Í sameiningu tókst þeim að ljúka úr öllum skálunum. Fljótlega
kom síðan Friedman sjálfur með aðalréttinn.
„Ætlarðu að útlista fyrir mér hvers vegna það er gott að vera heilalaus?“
spurði faðirinn í léttum tón, eins og hann væri að reyna að hrista af sér
atvikið sem þau urðu fyrir á leiðinni.
Þá kom stuttur fyrirlestur um egóið, að fólk hefði almennt of stórt egó. Til
að koma í veg fyrir það væri einmitt gott að vera heilalaus, því oftast tæki
fólk ákvarðanir í ljósi fortíðar annars vegar og væntinga til framtíðar hins
vegar. Fyrir vikið lifði það ekki í núinu heldur í blekkingu. „Af því leiðir að
mörgum finnst þeir vera aðgreindir frá öðrum,“ sagði Friedman.
„Það er einmitt tilfellið með mig,“ sagði faðirinn sem hafði hlustað á
ræðuna með bros á vör í fyrstu en reyndi svo að afmá brosið.
„Það má prófa kenninguna með því að gera alltaf öfugt við það sem maður
ætlaði að gera,“ sagði Friedman. „Flestir festast í fari meirihlutans, gera
bara það sem hann ákveður og hafa því í rauninni ekki frjálsan vilja. Allt
er markaðssett með meirihlutann í huga. Ólíkt flestum öðrum gerði ég mér
grein fyrir þessu og fór eigin leiðir. Þessi veitingastaður er ekki rekinn fyrir
meirihlutann og ég vel mér viðskiptavini ef því er að skipta.“
Þau tóku til við aðalréttinn eftir þennan fyrirlestur, vefju með grænmeti
í. Föðurnum þótti maturinn bragðdaufur og tókst ekki alveg að ljúka við
skammtinn, ekki heldur drengjunum. Friedman kom og sótti diskana og
var þungur á brún.
„Ég gerði einmitt öfugt við það sem mér var sagt að gera,“ sagði pabbinn.
Friedman lét sem hann heyrði ekki athugasemdina og beindi sjónum að
eldri stráknum sem sat þarna með matarleifarnar fyrir framan sig. Hann
hafði aldrei svo mikið sem reynt að borða grænmetisrétt áður.