Tímarit Máls og menningar - 01.12.2016, Blaðsíða 37
Í s k ó g i s e m e k k i e r s k ó g u r
TMM 2016 · 4 37
Það geispaði, vakið til hálfs, móti sól í austri
líkt og það vildi mæla við mann og annan:
Heimur minn sé háttvirtri sál yðar nægur …
Ég hugsaði um það dögum saman á Klaustri.
Um þetta ljóð hef ég oft hugsað síðan ég las það fyrst. Ljónið í ljóðinu er
framandi þar sem það liggur við veginn á Mýrdalssandi en samt ekki. Mér
finnst eins og þetta ljón sé ættað úr heimi skáldskaparins, það er fulltrúi
ímyndunaraflsins, þetta er bókmenntalegt ljón, tákn sem ég veit reyndar
ekki hvað táknar. Samt sé ég ljónið fyrir mér sem alvöru ljón og ekkert
annað. Það er á einhvern hátt fáránlegt á þessum stað og um leið eðlilegt.
Einhverra hluta vegna dettur mér þetta ljóð í hug þegar ég hugsa til Þor-
steins frá Hamri. Mér finnst þó eins og þetta ljóð sé ekki dæmigert fyrir
skáldið. Um leið velti ég því fyrir mér hvað sé dæmigert og hvort ég geti eða
hafi komið auga á það.
Það talar í trjánum heitir ein bóka Þorsteins frá Hamri. Þessi titill hljómar
eins og gamall orðskviður og kannski er sú raunin. Samt er þetta titill
skáldsins, ljóð í sjálfu sér, hugsanlega líking um klið sem heyrist frá hópi
fólks. Tré og skógur koma oft fyrir í ljóðum Þorsteins frá Hamri en það er
samt ekki eins og sé verið að benda á tré fyrir utan gluggann eða í garð-
inum. Það er sjaldnast talað um ákveðin tré, þó er á einum stað talað um
eik sem grær og í framhaldinu um viðju og björk. Hvaða skógar og tré eru
þetta eiginlega sem koma fyrir aftur og aftur í ljóðunum? Það er alls enginn
skógur í ljóðinu um ljónið. Þar er sandur og auðn. Ísland. Samt óvenjulegt
Ísland. Og það fannst kannski skáldinu líka og kallaði ljóðið hillingu. Mér
finnst stundum eins og tré séu framandi í þessu landi okkar og hneigist til
að túlka skógana sem hluta af ímynduðu landslagi í heimi bókmenntanna og
tungumálsins. Stundum er líka skógur nálægur án þess að hann sé nefndur
beinum orðum. Og stórir komu skarar heitir ljóð eftir Þorstein sem vísar
til hins alþekkta kvæðis Álfareiðin eftir Jónas og Heine. Í ljóðinu er blásið í
sönglúðra en þar eru líka bifreiðar og skógurinn er því annar. Á öðrum stað
er talað um skóg sem er ekki skógur. Skógurinn og trén hjá Þorsteini virðast
þannig ekki alltaf vísa til einhvers skógar í umhverfi skáldsins eða okkar
samferðafólks hans.
Ég hef lesið allar bækur Þorsteins og í sumar þeirra leita ég aftur og aftur
en ég veit ekki hvort ég gæti bent á eitthvað dæmigert í ljóðum Þorsteins frá
Hamri. Ég veit ekki hvort ég er góður lesandi, hvað þá dæmigerður lesandi.
Ég hef tekið til mín ljóð eftir þörfum til að rifja upp einhverja hugsun eða til
að líta eftir því hvernig hann geri þetta eða hitt. Ég leyfi mér að plokka út það
sem mér finnst gott í það og það skiptið. Það eru margar setningar úr bókum
skáldsins sem ég get tuggið upp aftur og aftur fyrir sjálfum mér án þess endi-
lega að hafa þær yfir í samhengi ljóðsins. Ég á það til að týna mér í skóginum