Hugur - 01.01.2014, Page 67
Heimspekin og lífið 67
markmið – farsæld eða evdæmonía. Það er verk skynseminnar að finna og útskýra
markmiðið og leiðirnar að því. Þetta verk skynseminnar vinnur heimspekileg sið-
fræði í því eina augnamiði að menn verði farsælir, lifi hinu eina sanna góðlífi.
Markmiðið yrði að vera heildstætt og eitt, því þannig fengi líf manns heildarsvip
og samkvæmni sem væri ekki að heilsa ef urmull ólíkra markmiða réði skipulagi
eða öngþveiti lífsins. Þetta er markhyggja fornaldarsiðfræði, upphafsreitur allra
frá og með Platoni. Kenningar af þessu tagi fyrirfinnast vissulega í nútíman-
um. En þær eru frábrugðnar annars konar kenningum sem hafna markhyggju og
spyrja ekki um endanleg markmið, enda ríkir algert ósætti um endanleg markmið
innan samfélaga sem einkennast af fjölhyggju. Þessar kenningar einbeita sér að
leiðunum sem ættu að duga til að útskýra og tryggja réttlæti.
Að baki þessari sameiginlegu forsendu fornmanna býr fleira. Þrennt hefur verið
tínt til.18 Í fyrsta lagi töldu flestir að hægt væri að svara eftirfarandi spurningu:
Hvert er hið góða líf fyrir manninn? Þetta er varla skoðun margra um þessar
mundir. Við teljum fæst að hægt sé að gefa eitt svar við þessari spurningu, svar
sem hægt væri að komast að með skynsamlegum rökum. Ef við höldum að ein-
hver svör séu fáanleg, þá teljum við þvert á móti að svörin séu mörg, og velti á
manngerð og hæfileikum, menningarlegum, trúarlegum og pólitískum bakgrunni.
Í mesta lagi getum við sæst á mikilvægi grunngæða, sem sé nauðsynlegt skilyrði
öllum þeim sem leita farsældar, hvaða skilningi sem hún er skilin. En þá hefst í
raun leit að leiðum, í stað leitarinnar að markmiðinu. Í öðru lagi var talið að allir
stefni eða ættu að stefna að þessu góða lífi, ef þeir vissu í hverju það fælist. Þetta
teljum við ekki heldur lengur; það er langur vegur frá því að þetta sé sameiginleg
forsenda. Vissulega vill fólk lifa góðu lífi. En fyrst ekki er hægt að svara spurning-
unni hvert sé í raun hið eina góða líf fyrir manninn, enda séu þau margs konar ef
einhver, þá fellur sú skoðun að allir ættu að stefna að þessu lífi ef þeir vissu hvert
það væri. Og loks var talið að við ættum að skipuleggja alla breytni okkar og ríkið
sjálft þannig að breytnin leiddi til þessa góða lífs. Vandamálið við þessa skoðun
er það að séum við ósátt um hvert hið góða líf sé, en skipuleggjum líf okkar með
okkar eigin hugmynd að leiðarljósi, þá rekumst við á náungann sem hefur allt
aðrar hugmyndir. Okkur stendur ekki til boða að skipuleggja alla breytni okkar
á grundvelli hugmynda okkar um hið góða líf, heldur aðeins að svo miklu leyti
sem hún rekst ekki á hugmyndir annarra um hið góða líf. Þannig nálgumst við
opinbera stefnumörkun á annan hátt en fornaldarheimspekingar vildu, því við
höfum ekki lengur þennan sameiginlega grundvöll; við lítum til frumþátta sam-
félagsins, og deilum meira að segja um þá, fylgjum ýmist Rawls að málum eða
Nozick, eða einhverjum öðrum.
Vissulega hefur siðfræði fornmanna heillað marga nútímamenn, ekki síst hug-
myndin um farsæld einstaklingsins. Aristótelísk dyggðasiðfræði samtímans er
góð og gild normatíf siðfræðikenning. Sem slík er hún almenn og glímir við
sömu erfiðleika og aðrar almennar siðfræðikenningar, enda er einnig til hagnýtt
18 Striker 1996: 170–173. Striker gerir tilraun til að réttlæta forsendur fornmannanna og fellst að
flestu leyti á þær. Eins og ráða má af meginmálinu telur höfundur að þær eigi vart við lengur á
sama hátt og áður, sem sameiginlegur grundvöllur.
Hugur 2014-5.indd 67 19/01/2015 15:09:33