Hugur - 01.01.2014, Page 103
„Nýmenni“ eða mörk mennskunnar 103
eldri álitaefni í nýtt og jafnvel óvænt samhengi. Einnig hefur sú spurning verið
áleitin hverjir eigi að móta almenna stefnu um beitingu tækninnar og áhersla lögð
á að tryggja þurfi aðkomu fleiri en tiltölulega þröngs hóps sérfræðinga. Eitt þeirra
sviða sem hefur fengið vaxandi athygli á síðustu misserum er áhugi heilbrigðra á
að nýta sér tæki og aðferðir til að lækna sjúkdóma í þeim tilgangi að bæta sig með
einhverjum hætti eða efla. Hér má nefna ásókn fólks í fegrunaraðgerðir eða lyf til
að auka andlegt og líkamlegt úthald, sem upphaflega var ætlað að bæta líkams-
lýti eftir slys eða lækna alvarlega sjúkdóma. Þá skapar líftæknin möguleika á að
velja fósturvísa með tiltekna erfðafræðilega eiginleika og gerðar eru tilraunir með
ígræðslu elektróða í heila fólks til að efla heilastarfsemi eða skynjun svo dæmi séu
nefnd.
Efling heilbrigðra einstaklinga vekur margvíslegar siðfræðilegar spurningar,
ekki síst ef hún hefur áhrif á heila og taugakerfi mannsins, enda er heilinn ekki
eins og hvert annað líffæri heldur býr hann yfir minningum okkar og sjálfsskiln-
ingi. Efling hugar eða annarra taugafræðilegra þátta, s.s. minnis, einbeitingar eða
skynjunar, getur því breytt viðkomandi manneskjum að verulegu leyti. Slík efling
einstaklinga getur einnig haft áhrif á jafnræði milli fólks og þar með samfélags-
gerðina. Í fræðilegri umræðu um þessa nýju tækni er spurt hve langt megi ganga í
því að fikta við heilastarfsemi heilbrigðra einstaklinga. Er slík efling eftirsóknar-
verð? Ber að setja slíkri eflingu mörk?3 Í þessari grein verður fjallað um þessar
spurningar, einkum með eflingu heila og taugakerfis í huga. Fyrst verður hugað
að vandanum við að skilgreina hvað í eflingu felist, en það leiðir að umræðu um
mörk eflingar og greinarmuninn á læknismeðferð og eflingu. Margir gera sér von-
ir um að með heila- og taugaeflingu verði í framtíðinni hægt að breyta manninum
verulega og jafnvel að ný manntegund muni líta dagsins ljós. Hún snertir því
grundvallarspurningar mannlegrar tilveru og vekur áleitnar siðferðilegar spurn-
ingar um samfélag okkar, gildismat og sjálfsskilning. Í síðari hluta greinarinnar
verður fjallað um þessi efni og m.a. velt upp ástæðum þess að taugaefling vekur
jafn mikinn áhuga og raun ber vitni.
Heila- og taugaefling. Mörk læknisfræðilegrar meðferðar og eflingar
Frá örófi alda hafa manneskjur reynt að auka bæði á andlegan og líkamlegan
styrk og yfirvinna margvíslegar takmarkanir sínar og því er saga hugmynda og
tilrauna um eflingu einstaklinga orðin býsna löng. Urban Wiesing bendir til að
mynda á áherslu Forn-Grikkja á að efla og styrkja einstaklinginn og leit þeirra
að fullkomnun.4 Þessi þrá eftir fullkomnun kom skýrt fram í menningu þeirra og
hefur allar götur síðan birst með margvíslegum hætti í viðfangsefnum vísinda-
manna, rithöfunda og listamanna. Geta heila og taugakerfis þróast í samspili við
3 Siðfræðistofnun tekur nú um stundir þátt í verkefninu NERRI (Neuro-Enhancement: Respon-
sible Research and Innovation) sem styrkt er af 7. rammaáætlun Evrópusambandsins en markmið
þess er m.a. að efna til samfélagslegrar umræðu um heila- og taugaeflingu og taka afstöðu til þess
hvernig ramma eigi að setja rannsóknum á þessu sviði. Verkefnið hófst 2013 og er til þriggja ára.
4 Wiesing 2009.
Hugur 2014-5.indd 103 19/01/2015 15:09:35