Hugur - 01.01.2014, Page 114
114 Henry Alexander Henrysson
Siðfræðikenningar
Ekki er ávallt augljóst hvaða leið sé líklegust til árangurs þegar kemur að því að
skera úr um siðferðileg álitamál. Sú sem flestir grípa til er að nýta sér kenningar
sem lýsa innviðum siðferðisins, eins og stundum er talað um, á ákveðinn hátt og
nota þær síðan til að svara spurningum á borð við hvað sé leyfilegt og hvað bann-
að, og hvers samfélagið getur (og við sjálf getum) krafist af okkur. Slíkar kenn-
ingar nefnast normatívar siðfræðikenningar. Aðrar leiðir sem eiga að varpa ljósi
á – og stundum draga fram – siðferðileg álitamál eru til dæmis þær að máta þau
við skráðar eða óskráðar siðareglur í samfélaginu. Slíkar reglur geta hvort sem er
tengst smærri atriðum í starfi og afþreyingu eða snúið að víðtækum meginreglum
eins og skaðleysi, réttlæti, sjálfræði og ábyrgð gagnvart umhverfinu.2 Einnig er
mögulegt að nýta sér dæmisögur eða minni úr bókmenntaverkum til að skerpa
sýn á siðferðileg álitamál. Dæmið hér að framan um rjúpurnar og hvort viðeig-
andi sé að njóta einhvers og láta aðra úr fjölskyldunni ávallt sjá um fyrirhöfnina
sækir til dæmis augljóslega innblástur til sögunnar af litlu gulu hænunni.
Siðfræðikenningar eru þó sá efniviður sem getur reynst hvað drýgstur við að
takmarka óvissu, tryggja samkvæmni í skoðunum og forðast mótsagnakenndan
málflutning. Þær bjóða upp á svör við erfiðum spurningum eins og hvað okkur
beri að gera í vissum aðstæðum. Þær segja okkur með öðrum orðum eitthvað um
hvað er leyfilegt og hvað ætti að láta ógert. Nytjastefna er líklega sú kenning sem
hefur verið mest áberandi í heimspekilegri greiningu á samskiptum manna og
náttúru á síðustu áratugum.3 Grundvallaratriði hennar – að forsendur siðadóma
velti fyrst og fremst á því hvort athafnir leiði til svo mikils sársauka og óþæginda
fyrir þær lífverur sem geta fundið til að sú ánægja sem fylgir athöfninni vegi þar
ekki upp á móti – hefur verið notað til að skoða flestar hliðar á umhverfismálum.
Siðfræðingar sem hafa beitt nytjastefnu til að skoða vernd og réttindi dýra hafa
náð miklum árangri í að móta, skýra og leiða umræðuna. Spurningarnar sem
fylgja henni um hvaða dýr finni í raun og veru til á sama hátt og maðurinn og
hvort athafnir hans geti ekki verið réttmætar eða ámælisverðar óháð afleiðingum
þeirra hafa hins vegar ávallt fylgt henni og verið tilefni harðra skoðanaskipta.4
Annars konar fræðileg nálgun á samskipti manns og náttúru er sú að horfa á
hverja lífveru, og jafnvel vistkerfi, sem ákveðna heild sem hefur til að bera það
endum í málstofunni þakka ég góðar spurningar og ritrýni Hugar mjög viðeigandi athugasemdir.
Tilefni greinarinnar er meðal annars rannsókn sem ég vinn að um siðferðileg álitamál varðandi
nytjar á sjávarspendýrum.
2 Vilhjálmur Árnason o.fl. (2005) ræða siðferðileg álitamál við fiskveiðar og stjórnun þeirra í ljósi
slíkra meginreglna (velferðar, frelsis og réttlætis). Í grein sinni „Lífpólitík í lýðræðissamfélagi“
(Vilhjálmur Árnason 2011) varar Vilhjálmur við því að siðfræðingar horfi eingöngu til þröngra
siðfræðilegra viðmiðana „án þess að leiða hugann að því hvaða afleiðingar það kunni að hafa í
víðara samhengi“ (184).
3 Bók Peters Singer Animal Liberation (1975) er án nokkurs vafa það verk sem mestu hefur ráðið um
hvernig nytjastefnu er beitt í umhverfissiðfræði. Í verkinu færir hann rök fyrir því að hagsmunir
dýra skipti máli í siðferðilegum skilningi þar sem ekkert bendi til annars en að þau geti fundið til
sársauka og liðið þjáningar.
4 Helsta ágreiningsatriðið er hvort dýr njóti einhvers konar réttinda, svipaðra mannréttindum, eða
hvort réttindahugtakinu (sem nytjastefna þarf ekki á að halda) sé ofaukið í þessari umræðu. Um
réttindi dýra sjá Regan 1983.
Hugur 2014-5.indd 114 19/01/2015 15:09:35