Hugur - 01.01.2014, Page 115
Skotveiðar á spendýrum 115
gildi sem er forsenda þess hvernig koma á fram við hana. Þetta gildi, eða verð-
mæti, er þá það sem er náttúrulegt fyrir lífveruna – er henni eðlislægt. Stundum
er talað um að lífverur eigi sér tilgang eða markmið.5 Í því ljósi getum við greint
hvað myndi einkenna eðlilega og eftirsóknarverða tilveru hverrar tegundar, og
þar af leiðandi hvað gæti komið í veg fyrir að lífveran fái að njóta hennar. Slíkar
hindranir eru þá rangar í vissum skilningi, að minnta kosti gagnvart þeirri lífveru
sem beitt er hindrunum. Þekkt dæmi sem er gjarnan notað er hvað einkenni
heilbrigðan karlkyns páfugl.6 Stórbrotið stél páfugls er fuglinum nauðsynlegt, í
því felast raunveruleg gæði fyrir hann. Ef einhver myndi plokka fjaðrirnar af heil-
brigðum fugli að ástæðulausu (þ.e. hann hefði engin mikilvæg not fyrir fjaðrirnar)
væri sá hinn sami að brjóta gegn annarri lífveru og athöfnin í því ljósi siðferðilega
röng.7
Vandamálið við að beita kenningum eins og þeim sem hér hafa verið reifaðar
er að umræðan getur svo auðveldlega færst frá álitamálinu sem reynt er að greina
og lýsa og yfir í umræðu um hvort kenningunni sé rétt beitt. Sem dæmi má nefna
heitar umræður sem jafnan skapast þegar nytjastefnu er beitt, svo sem um hvort
þar sé verið að beita einfeldningslegri útgáfu hennar og hvort tillit sé tekið til
allra þeirra fyrirvara sem þurfi að hafa í huga þegar leikslokakenningar eru settar
fram. Slíkar umræður geta skapað ákveðna þreytu jafnt hjá almenningi og öðrum
fræðimönnum sem hafa jafnvel takmarkaðan áhuga á smáatriðunum við fram-
setningu siðfræðikenninga. Ein leið til að takast á við þannig þreytu og önnur
merki um að hefðbundnar siðfræðikenningar tali ekki alltaf nægilega skýrt til
fólks er að smíða nýjar kenningar sem ætlað er að falla betur að breyttum veru-
leika samfélags, umhverfis og einstaklinga. Þar má nefna kenningar sem horfa til
fegurðar og mikilfengleika náttúrunnar, frumstæðs eðlis mannsins og femínisma.
Samkvæmt slíkum kenningum veita hefðbundnar siðfræðikenningar ekki svör
við því hvað okkur beri að gera í samskiptum manns og náttúru heldur liggi þessi
svör í þróun búsetu, tilgátum um hvernig maðurinn hefur á þróunarbraut sinni
aðlagast umhverfi sínu og í nýrri sýn á kyn og kynjahlutverk.8
Hér virðist þó vera við sama vandamál að etja og áður var nefnt: Innan kenn-
inga getur verið um innri mótsagnir að ræða sem aftur leiðir til umræðu um þær
sjálfar og skyggir á þau álitamál sem ætlunin er að kryfja. Spurningar vakna hvort
t.d. borgarbúum beri að leita leiða til að samsama sig náttúrupplifun fólks sem
hrífst af tilteknu umhverfi, hvort hið kvenlega standi í raun og veru nær nátt-
5 Nýlegan inngang að beitingu náttúrulagakenninga í umhverfissiðfræði má finna hjá Davison
2009.
6 Philippa Foot nýtir sér dæmið af páfuglinum til að sýna fram á hvaða náttúrulegu eiginleikar
lífveru skipta hana raunverulegu máli (2003: 33).
7 Öll dæmi af þessu tagi varpa ljósi á það meginatriði umhverfissiðfræði að gildi, hagsmunir og
skyldur takast í sífellu á. Sú staðreynd, meira en nokkur önnur, sýnir hvað siðfræði er mikilvæg
þegar kemur að umhverfismálum.
8 Leopold (1970) og fjölmargir höfundar sem hafa skrifað í anda hans leggja áherslu á hvernig
borgarbúinn þarf að breyta viðhorfum sínum til náttúrunnar; Ortega y Gasset (1995) vill leggja
áherslu á hvað er manninum eðlislægt og Griffin (1978) og fleiri hafa fært rök fyrir því að konur
standi í nánara sambandi við náttúruna, meðal annars vegna stöðu sinnar sem þolendur drottn-
unargirni karlmanna.
Hugur 2014-5.indd 115 19/01/2015 15:09:35