Orð og tunga - 2021, Page 17
6 Orð og tunga
síðarnefndu tilbrigðin voru algengari þegar texti var lesinn af blaði
og getur Kristján í þessu sambandi um stílsmun eða gildismun á
fram burðarafbrigðunum tveimur (Kristján Árnason 2005:386). Má
af þessu sjá hvernig sami málnotandi kann að bregða fyrir sig mis
mun andi tilbrigðum eftir samskiptaaðstæðum – og rétt er að gefa því
gaum hér að málaðstæðurnar sem lýst er (spjall/upplestur) eiga sér
hlið stæðu í kvarða Labovs (1972) sem nánar verður lýst hér á eftir.
Lilja Björk Stefánsdóttir (2016) bar saman tiltekin framburðarein
kenni í máli eins karlmanns, Helga Hrafns Gunnarssonar, annars
vegar í fremur óformlegu sjónvarpssamtali 2005, þar sem eingöngu
venjulegur algengur reykvískur framburður kom fyrir hjá honum,
og hins vegar í þingræðum hans frá 2013 og 2014. Helgi Hrafn
var kjörinn á þing 2013. En í þingræðu 2014 kemur fram nýmæli í
framburði hans sem hvorki bar á 2005 né 2013. Nú var hann stundum
harðmæltur (breytingar, netinu) en stundum þó ekki (Píratar, hóta). Lilja
Björk (2016:21) telur að þetta sýni „viðleitni til að tala gott og vandað
mál“. Í þingræðu 2014 notar hann að auki vestfirskan einhljóða
framburð í fanga, langt en annars tvíhljóðaframburð (fangelsismál,
fangelsisrefsingar). Lilja Björk (2016:21) telur greinilegt að harðmælið
og einhljóðaframburðurinn sýni meðvitaða viðleitni þessa málnot
anda til að breyta máli sínu.
Lilja Björk Stefánsdóttir og Anton Karl Ingason (2018) könnuðu
stílfærslu í þingræðum Steingríms J. Sigfússonar á árunum 1990–2013.
Fram kom að þetta tilbrigði í setningagerð var breytilegt í þingræðum
hans frá einu tímabili til annars á þeim hluta stjórnmálaferilsins sem
var kannaður. Þótt rannsóknin hafi einkum beinst að breytingum í
máli þessa einstaklings út frá aldursskeiðum hans og stöðu skiptir
hún einnig máli fyrir viðfangsefni þessarar greinar vegna þess að
stílfærsla er fremur ritmálslegt einkenni og tengist formlegu máli,
eins og Lilja Björk og Anton Ingi (2018:1) benda á. Meðal áhugaverðra
niðurstaðna Lilju Bjarkar og Antons Inga er að notkun Steingríms á
stílfærslu virtist haldast í hendur við mismikið hlutverk hans á hverj
um tíma í stjórnmálum og landstjórninni. Þannig fjölgaði dæmum um
stílfærslu til muna þegar Steingrímur varð fjármálaráðherra í kjölfar
efnahagshrunsins 2008. Lilja Björk og Anton Ingi túlka niðurstöðurn
ar með málmarkaðshugtakinu (í útfærslu Sankoffs og Laberge 1978)
á þann hátt að aukinnar notkunar stílfærslu hefði einmitt mátt
vænta vegna mjög mikils málmarkaðsgildis Steingríms á þeim tíma:
„Sigfusson’s linguistic market value is extremely high in this period“
(Lilja Björk Stefánsdóttir og Anton Karl Ingason 2018:8).
tunga_23.indb 6 16.06.2021 17:06:47