Orð og tunga - 2021, Blaðsíða 24
Ari Páll Kristinsson: Innri breytileiki og málsnið 13
Bell (1984, 2001) setti fram hugtakið audience design til skýringar á
því hvenær og hvernig einstakir málnotendur fara milli breytilegra
málsniða. Þar er gengið út frá því að valið ráðist fyrst og fremst af því
hvaða hugmynd málnotandi gerir sér um viðmælanda sinn, eða ef
um fjölmiðlafólk er að ræða, hverja það telur vera að hlusta á sig (eða
lesa texta sinn). Hugtak Bells má e.t.v. þýða sem hlustendamiðun.
Hugmyndin spratt upp úr athugunum Bells á málnotkun útvarps
manna og annars fjölmiðlafólks en hana má vel yfirfæra á víðara
samhengi. Rauði þráðurinn er sá að fólk skipti um málsnið fyrst
og fremst eftir því hver viðmælandinn er (eða er talinn vera) og að
það atriði stýri málnotkuninni mest, hafi jafnvel meiri áhrif en sjálft
umræðuefnið. Bell (1984:171) sýndi fram á hvernig fjórir nýsjálenskir
útvarpsmenn breyttu tilteknu framburðareinkenni (röddun á /t/ milli
sérhljóða) en hljóðfræðilegt birtingarform hljóðansins réðst greinilega
af því á hvaða útvarpsrás mælendurnir unnu hverju sinni; væri rásin
ætluð eldri eða „þroskaðri“ hlustendum var framburðurinn annar
en ef útvarpsefnið var miðað við miklu yngra fólk eða enn aðra
félagshópa. Auk þess sem fólk miði við viðmælendur sem slíka geti
það einnig haft í huga einhverja hópa, misstóra, sem eigi þann sess í
vitund málnotandans að hafa áhrif á málnotkun hans. Þar geti t.a.m.
verið um að ræða þjóð, þjóðarbrot eða fólk á tilteknum landsvæðum
og það sé mögulega hluti af mótun sjálfsmyndar viðkomandi mál
notanda að vilja tengjast þeim hópi eða hópum (Bell 1984, 2001). Í
endurbættum hugmyndum Bells (2001) í ljósi yngri viðhorfa er lögð
enn ríkari áhersla á slíka þætti. sbr. það sem hér á undan var nefnt um
eigin (frum)virkni málnotenda.
Hugmyndin um hlustendamiðun til að skýra málsniðsval fólks,
við aðstæður þar sem viðmælandi er ekki nálægur, samræmist að
einhverju leyti „aðlögun í tali“ (e. speech accommodation, speaker design).
Hvort heldur aðlögunin er kennd við málnotandann í samtali aug
liti til auglitis (sbr. speaker design), eða við fjarstadda hlustendur (sbr.
audience design) eru málsniðin annað og meira en hrein vörpun út frá
mismiklu formleikastigi eða öðrum þáttum í málaðstæðum. Málsnið
er aðlagað og mótað í meðförum málnotandans og það ferli kann að
vera að einhverju leyti meðvitað, hvort sem meginhvatinn er að koma
til móts við hlustendur/viðmælendur eða að sýna málnotandann
sjálf an í tilteknu ljósi (Coupland, Thøgersen og Mortensen 2016:30).
tunga_23.indb 13 16.06.2021 17:06:47