Orð og tunga - 2021, Page 34
Ari Páll Kristinsson: Innri breytileiki og málsnið 23
en foreldrar Þórarins og uppvöxtur hans í safninu er helsta þemað.
Þátturinn var sendur út 5. apríl 2015. Hins vegar er Margrét Kristín
Blöndal, Magga Stína, sem er best þekkt sem tónlistarmaður. Þáttur
inn hefst við heimili Möggu Stínu og síðan fara þau saman í sund í
Vesturbæjarlauginni og spjalla um heima og geima, m.a. sundiðkun
og sundlaugina. Þátturinn var sendur út 29. mars 2015.
Dæmum (26)–(33) er ætlað að veita innsýn í efniviðinn, orð Gísla
Marteins í sjónvarpsþáttunum tveimur.
(26) Ég er reyndar að pæla hvort við hérna af því við ætlum að fara
í sund af því ég sá þessar myndir hérna hjá þér.
(27) Ef ég hugsa til baka þú ert hérna þangað til þú ert átján ára.
(28) Bíddu var hún keppti hún á Ólympíuleikum eða hvernig var
hún sunddrottning?
(29) Heyrðu það var gaman að eyða þessum dagsparti með þér
hérna.
(30) En hérna þú ert tónlistarmaður.
(31) Og þú ert hér svolítið eins og eins og hérna lítill prins eins og þú
búir í kastala.
(32) Færðu eitthvað nostalgíukast við að koma hingað inn?
(33) Nei akkúrat.
Í samtölunum tveimur fylgir Gísli Marteinn hvergi skrifuðu handriti
frá orði til orðs. Sjónvarpssamtölin eru eigi að síður ritstýrt efni að
því leyti til að þau eru klippt til fyrir útsendingu. Raunar er flæðið í
samtölunum einkar eðlilegt og þau virka afslöppuð og fjörleg.
Gísli Marteinn virðist njóta sín vel og heldur viðmælendum sín
um skemmtilega við efnið án þess að trana sér mikið fram. Hann
er örlátur á endurgjöf (sjá t.a.m. Þórunni Blöndal 2004:126 o.áfr. um
það hugtak og hlutverk endurgjafar í samtölum) sem gefur til kynna
virka hlustun og áhuga á því sem viðmælandinn segir. Það leiðir til
þess að stuttar segðir (t.a.m. já, einmitt, já ókei, er það?, nei akkúrat) eru
einkennandi fyrir framlag hans til samtalanna.
Auk fyrrnefndrar endurgjafar má nefna fleiri dæmigerð samtals
einkenni. Svolítið er um endurtekningar (t.d. eins og eins og) og hikyrði13
13 Er hér farið eftir greiningu Ara Páls Kristinssonar (2009:138–145) og smáyrðum
(orðræðuögnum) skipt eftir hlutverki sínu í hikyrði, háttaryrði og tengiyrði.
tunga_23.indb 23 16.06.2021 17:06:47