Orð og tunga - 2021, Síða 63
52 Orð og tunga
í skrifum sínum. Það sama á þó við um Klemens og jafnvel að
einhverju leyti Guðnýju. Tilbrigðaleysi í bréfum Guðrúnar, sem öfugt
við systkini sín naut nær engrar formlegrar skólagöngu, gæti stafað
af því að myndirnar hef og hefur hafi verið (næstum) einráðar í máli
hennar almennt, í skrifum jafnt og tali, þótt ekki sé hægt að útiloka
að þarna sé um meðvitað val að ræða. Áhrif málstöðlunar eru aftur
á móti ólíkleg í tilviki Sigurjónu sem auk Finns sýnir mest tilbrigði í
bréfunum. Hún hafði ekki notið neinnar formlegrar menntunar og það
er vandséð eftir hvaða leiðum hugmyndir um æskilega málnotkun
hefðu ratað til hennar. Það er því nauðsynlegt að rýna betur í gögnin,
einkum niðurstöðurnar hjá Finni og Sigurjónu, og bera þau saman
við önnur gögn og heimildir.
Nánari skoðun á bréfum Finns leiddi í ljós áhugaverðan mun á
nútíðarmyndum hafa í eldri og yngri bréfum í úrvalinu: Á háskólaárum
hans voru myndirnar hefi og hefir næstum allsráðandi í bréfunum
(99%) en síðar urðu myndirnar hef og hefur ríkjandi (92%). Frekari
gögn styðja þetta. Fyrstu árin í Kaupmannahöfn (1878−1880) skrifaði
hann fjölda bréfa til móður sinnar. Mæðginin voru náin og bréfin
eru almennt persónulegri en þau sem hann skrifaði föður sínum.
Eigi að síður eru myndirnar hefi og hefir líka ríkjandi í þeim (96%)
svo Finnur virðist almennt hafa notað þær myndir í persónulegum
skrifum á yngri árum. Einnig var gerð lausleg athugun á útgefnum
skrifum hans frá ólíkum tímum, einkum blaðagreinum, og þar kom
í ljós svipað munstur og í bréfunum:8 Í efni frá árunum upp úr 1880
voru myndirnar hefi og hefir ráðandi (92%) en eftir 1900 voru hef og
hefur aftur á móti einráðar. Finnur virðist því hafa verið hallur undir
myndirnar hefi og hefir á skólaárum sínum, a.m.k. í ritmáli, en söðlað
um að námi loknu og farið að nota hef og hefur í skrifum sínum eins
og hann hefur trúlega alltaf gert í tali. Hann segir enda sjálfur síðar
á ævinni (Finnur Jónsson 1914:34−35): „hafa, nút. hef, hefur eða hefi,
hefir; [...] nú er ætíð sagt hef, hefur, og er rjett að það ráði.“ Þetta
bendir eindregið til þess að hann hafi breytt notkun sinni meðvitað
og það virðist því óhætt að fullyrða að málstöðlun hafi ráðið vali hans
þótt staðallinn sem hann fylgdi hafi breyst frá einum tíma til annars.
Hann hagaði því máli sínu á síðari árum eins og Guðrún sem alla
8 Eldri skrif Finns sem skoðuð voru: Greinin „Um íslenzka tungu“ í Skuld 2. ágúst
(bls. 74−75) og 18. ágúst 1882 (bls. 79−80) og hluti af greininni „Um hinn lærða
skóla á Íslandi“ í Andvara 1883 (bls. 97−103 og 130−135). Yngri skrif: Greinar í
Þjóðólfi 12. október 1901 og 21. mars 1902 ásamt formála að Orðakveri (Finnur
Jónsson 1914).
tunga_23.indb 52 16.06.2021 17:06:49