Orð og tunga - 2021, Page 83
72 Orð og tunga
(2) a. Hvaða viðskeyti geta tengst viðskeyttum grunnorðum
og hvaða ekki?
b. Hvaða viðskeyti geta bætt við sig öðrum viðskeytum
og hvaða ekki?
c. Hvaða viðskeyti geta tengst eignarfallsendingum
(klof in viðskeyting)?
d. Er hægt að breyta innbyrðis röð viðskeyta í íslensku
til þess að mynda nýjar raðir?
Dæmum til rannsóknarinnar var aðallega safnað úr Íslenskum orðasjóði
sem er gagnagrunnur geymdur við Háskólann í Leipzig (sjá 4.2.2). Í
gagnagrunninn er safnað saman textum af netinu, m.a. af bloggsíðum
og heimasíðum. Hann geymir efni frá fjölmörgum tungumálum,
þ. á m. íslensku (sjá Erlu Hallsteinsdóttur 2007) og leitað var að
viðskeytaröðum sem komu upp við aðgerðirnar sem lýst er í (1).
Efnisskipan greinarinnar er á þá leið að í öðrum kafla verður
fjallað um þrjár tilgátur um viðskeytaraðir, m.a. um valhömlur, og
í þriðja kafla verður nánar rætt um ýmsar valhömlur við tengingu
viðskeyta. Í fjórða kafla verður sagt frá niðurstöðum rannsóknar á
tvenns konar viðskeytaröðum í íslensku; annars vegar þar sem fyrra
viðskeytið myndar nafnorð og hins vegar þar sem fyrra viðskeytið
myndar lýsingarorð og á tengingarmöguleikum þeirra við viðskeyti
sem geta tengst orðum af þessum orðflokkum (sbr. 1). Í fimmta kafla
verður fjallað nánar um viðskeytaraðir í íslensku og hvaða hömlur
eru mögulega þar að verki. Einnig verður fjallað um viðskeyti sem
tengjast eignarfallsendingum og nefndar hugsanlegar ástæður fyrir
hlutfallslega fáum viðskeytaröðum. Í sjötta kafla eru svo helstu
niðurstöður dregnar saman.
2 Þrjár tilgátur um viðskeytaraðir
2.1 Lagskipting orðasafnsins
Innan orðhlutahljóðkerfisfræði (e. lexical phonology) var hugmyndin
um lagskiptingu orðasafnsins (e. stratum ordered lexicon) og um samspil
lagskiptingarinnar og virkni hljóðkerfisreglna miðlæg (sjá m.a. Kip
arsky 1982, 1984, 1985, Rubach 1985, Mohanan 1986, Katamba 1993,
Booij 1994 og Þorstein G. Indriðason 1994 um íslensku sérstaklega).
Orðhlutafræðinni, beygingu, viðskeytingu og samsetningu, var skip
tunga_23.indb 72 16.06.2021 17:06:49