Andvari - 01.01.2019, Blaðsíða 6
ANDVARI FRÁ RITSTJÓRA 5
Frá ritstjóra
Hið íslenska þjóðvinafélag varð til á nítjándu öld sem stjórnmálasamtök og
byggir á þeim menningararfi sem sú öld lét eftir sig. Á þessu ári er þess
minnst, meðal annars hér í Andvara, að tvö hundruð ár eru liðin frá því
að einn mesti afreksmaður íslenskra mennta leit dagsins ljós. Þetta er Jón
Árnason þjóðsagnasafnari og fyrsti landsbókavörður Íslendinga, fæddur
1819. Þjóðsögurnar sem Jón safnaði og við hann eru kenndar eru vissulega
einn mesti dýrgripur þjóðmenningar okkar. Sigurður Nordal sagði einhverju
sinni eftirminnilega frá því hversu hátt hann skipaði verki Jóns. Ummælin
voru á þá leið, að ef gjörvallar íslenskar bækur væru til í aðeins einu eintaki,
þeim yrði hlaðið í einn bálköst og honum boðið að kjósa sér tvær bækur
til að bjarga frá eyðingu, „þá myndi ég velja Njálu og Þjóðsögur Jóns
Árnasonar,“ sagði Nordal. Skáldkonan Theodora Thoroddsen var vel kunnug
Jóni og minntist hans fallega á aldarafmæli fyrir réttum hundrað árum. Orð
hennar eru vissulega enn í fullu gildi: „Aldir og óbornir standa í þakklætis-
skuld við Jón Árnason, manninn sem varði bestu árum sínum til að safna
í þann sjóð sem hann vissi að aldrei myndi miðla gulli í hans eigin vasa,
en stendur opinn hverjum sem ann íslenskri tungu og þjóðlegum fræðum.“
(Theodora Thoroddsen: Ritsafn, 1960)
Það er vissulega rík ástæða til að minnast slíks manns, enda hefur það
verið gert myndarlega á árinu, bæði í átthögum hans í Húnaþingi og á
Landsbókasafni í Reykjavík, með fyrirlestrum og sýningum.
*
Rækt við fornan sagnaarf Íslendinga er mikilsverð og eigum við nú á að
skipa stofnunum og starfsliði sem slíku sinnir, sér í lagi Stofnun Árna
Magnússonar í íslenskum fræðum. En önnur starfsemi skiptir einnig miklu
máli. Hún er sú að snúa á íslensku erlendum öndvegisverkum í skáldskap og
fræðum. Þar hafa ýmsir lagt hönd á plóg á síðustu áratugum.
Á þessu ári féll frá einn sá maður sem vel og trúlega sinnti þessu starfi í
okkar samtíð, Atli Magnússon. Hann lét aldrei mikið á persónu sinni bera á
opinberu sviði, þótt hann starfaði lengstum við blaðamennsku. En eftir Atla