Andvari - 01.01.2019, Page 29
28 HJALTI HUGASON ANDVARI
arkitekt kirkjunnar, Guðjón Samúelsson (1887–1950), húsameistari
ríkisins, hafi auðkennt eina af teikningum sínum af henni þannig. Í
Samvinnunni var kirkjan talin verða með frumlegustu og glæsilegustu
kirkjum landsins ásamt Hallgrímskirkju í Saurbæ sem þá var þegar
komin á teikniborðið (vígð 1957).95 Var Pétur andsnúinn nafngiftinni
framan af en afstaða hans breyttist síðar.96 Enn þann dag í dag er þessi
nafngift oft rædd í hópi Akureyringa og sýnist sitt hverjum. Aldrei
hefur hún þó orðið ráðandi.
Upp úr aldamótunum 1900 hófst umræða um að reisa þyrfti nýja
sóknarkirkju á Akureyri þar sem guðshúsið í Fjörunni væri orðið of
lítið fyrir ýmsar ahafnir, væri illa staðsett í útjaðri bæjarins, væri af
vanefnum gert og svaraði ekki lengur kröfum tímans til kaupstaðar-
kirkna.97 Undirbúningur að byggingu nýs guðshúss tók þó langan
tíma. Þegar 1918 hafði sóknarnefnd vissulega fengið augastað á nú-
verandi staðsetningu fyrir kirkjuna á háhöfðanum yfir Grófargili
sem nú kallast Listagil. Hann var þó ekki endanlega ákveðinn fyrr
er rúmum áratug síðar.98 Guðjón Samúelsson lýsti staðnum þannig:
„Kirkjustæðið á Akureyri er hið fegursta sem ég hef séð, bæði hér-
lendis og erlendis. Kirkjan stendur á háhöfðanum og gnæfir yfir allan
bæinn og sést langt utan af Eyjafirði.“99 Bærinn hefur stækkað mikið
án þess að byggð hafi á nokkurn hátt ógnað stöðu kirkjunnar og mun
svo tæpast verða um fyrirsjáanlega framtíð. Upphaflega var efnt til
samkeppni um uppdrætti að kirkjunni en Guðjóni síðar falið verkefn-
ið. Lágu frumteikingar fyrir sumarið 1938 og var þá hafist handa við
bygginguna.100 Sökum heimskreppu og styrjaldar var miklum erfið-
leikum bundið að koma upp eins veglegri byggingu og hér var um
að ræða. Mun Eysteinn Jónsson (1906–1993) fjármálaráðherra jafnvel
hafa hótað að stöðva kirkjubygginguna með fógetavaldi ef haldið yrði
áfram með verkið eftir vetrarhlé.101 Framkvæmdir héldu þó áfram og
var kirkjan vígð sunnudaginn 17. nóvember 1940. Hófst hátíðin með
klukknahringingu kl. 18 kvöldið áður. Þar sem styrjöld stóð yfir varð
að kynna fyrirætlunina í bæjarblöðunum og taka fram að ekki yrði
um loftvarnarmerki að ræða.102 Hin nýja Akureyrarkirkja var lengi
og er raunar enn ein af veglegustu kirkjum landsins. Auk rúmgóðs
kirkjuskips er þar minna rými, svonefnd kapella, í kjallara kirkjunnar.
Þjónaði hún lengi sem safnaðarheimili og hýsti fermingarstarf, margs
konar félagsstarfsemi á vegum safnaðarins og var auk þess notuð til
æfinga ýmissa kóra í bænum.103 Löngu síðar eða á áttunda áratug 20.