Andvari - 01.01.2019, Blaðsíða 94
ANDVARI JÓN ÁRNASON, ÆVI OG STÖRF 93
honum fyrir þetta mikla verk. Eftir þetta fara bréf á milli Konrads Maurers
og Jóns Árnasonar ekki jafnört og áður en þeir skrifuðust samt á allt þar til
skömmu fyrir andlát Jóns.
Þjóðsagnasafnarinn
Útgáfuferill þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar er þó ennþá flóknari en hér
hefur verið lýst því að Jón Árnason safnaði ekki bara sjálfur, heldur fór hann
þá leið að skrifa vinum sínum „og skólabræðrum og öðrum fræðimönnum
víðs vegar um landið“ og lét fylgja með yfirlit eða „Hugvekju“ yfir það sem
hann vildi helst að þeir söfnuðu eða létu safna.48 Langstærsti hluti þjóð-
sagnasafns Jóns Árnasonar er þess vegna sögur sem hann fékk úr handritum
annarra og útgáfusaga þess vekur þannig upp margar forvitnilegar spurning-
ar um ferli þeirra og breytingar sem gerðar hafa verið á leiðinni. Með mik-
illi einföldun má segja að sögurnar hafi verið skrifaðar niður eftir alþýðu-
fólki og þeim síðan breytt af menntamönnum, s.s. prestum. Þær fóru loks í
gegnum ritstjórnarferli (eins og fjallað er um hér að framan), þar sem þeim
var e.t.v. breytt frekar, sögum blandað saman til að fá eina frásögn af sama
atburði og sumum var sleppt og aðrar teknar með í útgáfuna.
Vegna vinnubragða Jóns hefur verið talað um að hann hafi ekki verið
virkilegur þjóðsagnasafnari heldur hafi hann mun frekar gegnt hlutverki
ritstjóra.49 Þó er hægt að finna sögur í safninu sem Jón safnaði sjálfur af
vörum fólks og hann nýtti líka eldri handrit og prentaðar bækur. Sú sem
hér ritar skoðaði söfnun Jóns sjálfs fyrir nokkrum árum og lagði upp með
spurningar sem snerust um kynjaskiptingu heimildarfólks hans, af hvaða
stétt það fólk væri, hvaðan af landinu það kom, tengsl þess innbyrðis, og
að lokum hvernig sögur það sagði. Niðurstaðan varð í stuttu máli sú að í
hópi heimildarfólks Jóns voru mun fleiri karlar en konur, fólkið var lang-
flest úr efri stéttum þjóðfélagsins og meirihlutinn átti heima í Reykjavík
eða nágrenni.50 Við þá rannsókn var farið eftir manntali 1860 en Jón bjó
þá sjálfur við Austurvöll. Skráning hans á þjóðsögum hverfist aftur á móti
að mjög miklu leyti um húsið við Aðalstræti 6 (nú 16) þar sem hjónin Jón
Guðmundsson (1807–1875) og Hólmfríður Þorvaldsdóttir (1812–1876)
bjuggu. Heimili þeirra var sannkölluð menningarmiðstöð Reykjavíkur þess
tíma, með föstum menningarsamkomum sem haldnar voru á hverju sunnu-
dagskvöldi yfir veturinn, með leikæfingum, upplestrum og söng.51 Auk þess
seldi Hólmfríður mat til skólapilta yfir veturinn og til alþingismanna um
þingtímann og nokkrum fátækum piltum var gefið að borða í einn eða tvo
mánuði á hverjum vetri og er Sigurður málari nefndur sem einn þeirra.52 Þá