Andvari - 01.01.2019, Page 124
ANDVARI HEIMSMYNDIR, ÖGURSTUNDIR, MANNTAFL 123
tengsl þessara gilda býsna flókin, því að auk þess öryggis og stöðugleika
sem Zweig víkur að í upphafi, er hann einnig talsmaður einstaklingsfrelsis
og fjölmenningar.
Þegar Zweig skrifaði Veröld sem var hafði hann verið í útlegð frá heima-
landi sínu í nokkur ár og raunar hafði það verið innlimað í Stór-Þýskaland.
Hann hafði í reynd glatað beinum og lifandi aðgangi að mestöllum móður-
málsheimi sínum. Áður en hann lauk bókinni var Evrópa að stórum hluta
komin undir hæl grimmilegs einræðis, sú Evrópa sem hann kallar „heima-
land“ sitt, eins og segir í íslensku þýðingunni (6), en það er athyglisverð leið
til að túlka orðið „Heimat“ í frumtexta Zweigs, sem einnig mætti þýða sem
„heimkynni“ eða „átthaga“.5
„Heimat“ er merkingarríkt orð á þýsku og það reyndist fullhægur vandi
að tengja það stækri þjóðernishyggju sem pískuð var upp í Þýskalandi sem
víðar á fyrri hluta 20. aldar. Í huga Zweigs nær þetta hugtak til heimaborgar
hans, Vínar, en næsti sjóndeildarhringur þess er ekki þjóð eða ríki, heldur
Evrópa sem hann hafði talið vera á góðri leið með að öðlast fjölbreytileg-
an en þó sameiginlegan merkingarheim á vegum umburðarlyndis og frelsis.
Það má vissulega segja að Zweig hafi verið glámskyggn á þau tímanna tákn
sem vísuðu í aðra átt – að hann hafi búið við ýmis forréttindi í auðugri gyð-
ingafjölskyldu og það, ásamt því „einstaklingsfrelsi“ sem hann telur sig hafa
notið (7), leiði til þess að hann líti framhjá teiknum um að tilvera gyðinga
var langt frá því að vera örugg á æskuárum hans undir lok 19. aldar í Evrópu,
þótt þar hefðu þeir átt heimkynni öldum saman. Á hinn bóginn kann það að
vera þessi „blinda“, þessi mannlega afneitun, sem ásamt biturri tálsviptingu
veldur því að Veröld sem var hefur haldið gildi sínu og geymir erindi sem
lesendur hafa metið mikils. Verkið vísar með heiti sínu til fyrri tíðar og ekki
löngu eftir að höfundur lauk við það kaus hann að binda einnig enda á eigið
líf (í Brasilíu 23. febrúar 1942), en bókin átti eftir að eignast lesendur víða
um lönd sem hafa til þessa dags haldið áfram að tengjast sögu hans og finna
þar erindi sem varða þeirra eigin tíma og umheim.
Bók Halldórs Laxness vísar einnig með heiti sínu til tímans og hún er
á sinn hátt heimsmyndarkönnun eins og verk Zweigs. Orðið „skáldatími“
getur tekið í senn til „samkomu“ þeirra fjölmörgu rithöfunda sem sagt er
frá á síðum bókarinnar, þar á meðal sögumanns sjálfs, og til þess tíma sem
skáldin lifa og hrærast í og skapa að einhverju leyti sjálf með ritverkum
sínum og öðrum athöfnum. Bókin er áhugaverð sem sagnaverk, samsett úr
köflum er kalla mætti „þætti“ og eru mismikið saman hnýttir. Söguhetjan og
sögumaður eru í senn einn maður og tveir; stundum er líkt og sá síðarnefndi,
staddur á ritunartíma, fylgist með nafna sínum á millistríðsárunum, úr írón-
ískri fjarlægð sem getur verið erfitt að henda reiður á. Hvernig eigum við að
tengjast þessari rödd? „Loks voru réttarhöldin á enda og búið að skjóta þessa