Andvari - 01.01.2019, Side 127
126 ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON ANDVARI
Farandsalinn Stefán Zweig var sakleysið sjálft á svipinn, dálítið einsog lamb.
Þennan ólíkindasvip setti hann upp af því hann hreyfði ekki annan varníng en gull
og gimsteina. Hann var ljúfur og einfaldur í máli en ögn mæddur af því að þurfa
altaf að vera að gæta þessarar dýrmætu vöru meðan aðrir kaupmenn versla með
stykkjavöru og geta farið snemma að hátta á kvöldin án þess að kvíða því að vera
myrtir til fjár. Sú dvergasmíð sem þessi vörubjóður hefur meðferðis í vandaðri
skinnsál sinni gerir hann sjálfan að samanbrotnum þjóni þeirra sem eru nógu göf-
ugir menn til að meta hann að verðleikum; og öðrum vill hann heldur ekki sinna.
Hér er kaldhæðnin orðin nokkuð mergjuð og gott ef ekki gerjuð – ekki síst
ef við leiðum hugann að tvöföldum tíma þessarar frásagnar. Þegar þeir hitt-
ast á siglingunni yfir Atlantshafið 1936 er Stefan Zweig einn þekktasti og
mest þýddi rithöfundur heims en Halldór Laxness enn unglamb á þeim velli.
Þegar Halldór skrifar þennan texta er hann hinsvegar orðinn Nóbelshöfundur
en Zweig er kominn á fremur óræðan stað í heimsbókmenntunum – og raun-
ar höfðu ýmsir haft illan bifur á vinsældum hans alla tíð. Á þetta myndmál
um farandsalann með gull sín og gimsteina að vísa til þess að Zweig fæddist
með silfurskeið í munni eða þess að Zweig, eins og Ludwig, skrifaði vin-
sælar bækur um fræga einstaklinga? En þessi orðræða verður heldur ómark-
viss í framhaldinu og í raun fremur kaldranaleg umsögn um gyðing sem
hafði farið í útlegð frá heimalandi sínu og átti eftir að sjá það sogast inn í
ríki nasismans þar sem hann var bannaður höfundur og verk hans brennd á
opinberum vettvangi.
Sem betur fer lætur Halldór ekki hér við sitja. Fram kemur að hann hefur
fylgst af athygli með Zweig á ferðalaginu og tekur eftir því að hann sækir
í kvöld- og næturlíf. „Þar var hann hrókur alls fagnaðar þrátt fyrir látbragð
sem aldrei var beinlínis glaðlegt, því síður gáskafult, en oft dálítið dauð-
drepið svo manni gat dottið í hug að skemtanafíknin væri aðeins yfirborð
einhverrar nagandi myrkfælni sálarinnar og hann væri, einsog taugamenn
hjá Hemingway, að reyna að teygja tímann sem leingst frammá nóttina áður
en hann færi inn til að stríða við svefnleysið.“ Og að lokum:
Ég átti samt marga þægilega viðræðustund við þennan ágæta mann um daginn og
veginn eins og tveir rithöfundar tala saman, annar frægur, hinn ókunnur. Ein orð-
ræða hans við mig hefur orðið mér minnisstæð vegna sorgleiks sem hún átæptir,
og mundi eftilvill hafa orðið einginn eða annar ef hann eða ég hefðum tekið mark á
orðum er þar voru sögð. Við höfðum verið að ræða um fyrirsjáanlegt hrun Evrópu
ef stríð skylli á, en hann hélt því fram að Ísland mundi komast af klakklaust; og tók
saman efni ræðunnar með þessum orðum að lokum:
Þegar næsta stríð skellur yfir sendi ég yður orð að útvega mér herbergiskytru
einhversstaðar uppundir þaki í Reykjavík.
Það er óþarft að taka fram að Stefán Zweig var um þessar mundir einsog aðrir
góðir menn landflótta úr Stórþýskalandi Hitlers, og hafðist við í Lundúnum.