Andvari - 01.01.2019, Blaðsíða 154
GERÐUR STEINÞÓRSDÓTTIR
Uppsala-Edda
Teikning í handriti og áhrifamáttur hennar
Morgun einn lágu nokkrir peningaseðlar á náttborðinu mínu. Ég áttaði
mig á því að mennirnir á seðlunum höfðu komið við sögu Uppsala-Eddu.
Brynjólfur biskup Sveinsson á fjólubláa 1000 króna seðlinum hafði eign-
ast handritið á 17. öld, og Jón Sigurðsson á rauða 500 króna seðlinum kom
til Uppsala á 19. öld og afritaði handritið, gerði meira að segja skissu af
teikningunni í Uppsala-Eddu. Báðir höfðu þeir ást á fornum fræðum, báðir
höfðu handfjatlað handritið og báðir verið stórtækir handritasafnarar. Með
því starfi áttu þeir mikinn þátt í að auka vegsemd þjóðarinnar.
Þegar ég ákvað að skrifa um lýsingu í handriti á námskeiðinu „Myndlist
á miðöldum” kom strax upp í hugann teikningin af Gylfa Svíakonungi í
gervi Ganglera spyrja Óðin í líki þriggja konunga í Valhöll. Ég var kunnug
Snorra-Edda, einkum Gylfaginningu, í nútímaútgáfum og vissi að sá texti
byggði einkum á Konungsbók. Hugmynd mín var að kynna mér teikninguna
og hvað hefði verið skrifað um hana.
Á Árnastofnun hitti ég Guðvarð Má Gunnlaugsson rannsóknardósent
sem er vel kunnugur Uppsala-Eddu. Hann sagði mér að ekkert hefði verið
skrifað um teikninguna af Ganglera í Valhöll. Hann tjáði mér að Heimir
Pálsson, lektor í Uppsölum, hefði ritað grein í síðasta hefti Griplu um hand-
ritið og efnisskipun þess. Guðvarður sýndi mér einnig ljósprentaða útgáfu
af Uppsala-Eddu frá 1962 og ég rýndi í myndina af teikningunni á dökku
skinninu. Útgáfan er í tveimur bindum, sú síðari frá 1977 og sýnir hand-
ritið þegar búið er að leysa úr styttingum sem einkenna skinnhandrit. Fyrir
framan fyrra bindið er langur formáli eftir Anders Grape.
Ekki þótti mér verkefnið árennilegt eftir þennan fyrsta fund, en vegna
hvatningar frá Guðvarði og kennara mínum, Æsu Sigurjónsdóttur, ákvað ég
að taka fyrstu skrefin, segja frá handritinu, greina teikninguna og bera hana
saman við frásögn Snorra Sturlusonar. Ég byrjaði á því að lesa grein Heimis
Pálssonar í Griplu og síðan formála Grape, en hann rekur rannsóknir ein-
stakra manna á handritinu og útgáfur. Þetta voru mikil fræði. Ég reyndi
að afmarka mig við umfjöllun þar sem teikningin kom við sögu. Og það
reyndist stórmerkileg saga. Svíar höfðu svo að segja endurgert teikninguna