Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 5
6
í faginu.7 Skrif Cardozos og fjölmargra sporgöngumanna hans hafa eflt
almenna vitund um að lögfræðilegir textar hafi ýmis bókmenntaleg ein-
kenni en það er efni sem James Boyd White tók til ítarlegrar umræðu í bók
sinni The Legal Imagination (Hið lögfræðilega ímyndunarafl) árið 1973. Hún
er talin marka tímamót í akademískum rannsóknum á þessu sviði. Á næstu
tveimur áratugum urðu lög og bókmenntir að viðurkenndu þverfaglegu
rannsóknarsviði í Bandaríkjunum með þátttöku áhrifaríkra lögfræðinga,
heimspekinga og bókmenntafræðinga. Í þeim hópi eru Richard Weisberg,
Richard A. Posner, Martha nussbaum, Ronald Dworkin, Stanley Fish og
Peter Brooks. Ekki leið á löngu þar til bandaríska fræðiumræðan fór að
hafa áhrif víðar, meðal annars í Evrópu. Staðbundnar lögfræðilegar hefðir
og bókmenntir hafa eðlilega mótað rannsóknir í ólíkum löndum en ýmis
dæmi eru um hve erfitt getur reynst að skapa raunverulegan umræðu-
grundvöll milli lögfræðinga og fræðimanna af sviði hugvísinda.
Hér á landi hafa ýmsir fræðimenn sinnt rannsóknum sem unnt er
tengja sviði laga og bókmennta. Sterkust hefur hefðin verið í rannsóknum
á lagalegum grundvelli íslenskra miðaldabókmennta en þegar hugað er
að rannsóknum á íslenskum skáldverkum frá síðari öldum vekur sérstaka
athygli samstarf bókmenntafræðingsins Sveins Skorra Höskuldssonar og
lögfræðingsins Þórs Vilhjálmssonar. Árið 1969 kenndu þeir saman nám-
skeið sem ætlað var nemendum í þeim ólíku deildum Háskóla Íslands sem
þeir kenndu við; Þór var prófessor við lagadeild og Sveinn Skorri nýráð-
inn lektor í íslenskum bókmenntum við heimspekideild. Í grein sinni,
„Játningarnar í Sjöundármálinu“ sem birtist árið 2006, segir Þór svo frá:
Texti þingbókar Barðastrandarsýslu frá 1802 um Sjöundármálið var
skrifaður upp af laganemum og síðan dreift til þátttakenda. Þessi
texti var borinn saman við það, sem um réttarhöldin segir í skáld-
sögu Gunnars Gunnarssonar, Svartfugli, og rætt var um þýðingu
þess í bókinni. [...] Afbrotin sjálf voru stórglæpir en í huga grein-
arhöfundar hefur annað úr þessari morðsögu verið áleitið alla tíð
síðan. Eru það sinnaskipti morðingjanna í réttarhöldunum og játn-
ingar þeirra.8
7 Benjamin n. Cardozo, „Law and Literature“, Yale Review 14/1925, bls. 699−718.
8 Þór Vilhjálmsson, „Játningarnar í Sjöundármálinu“, Guðrúnarbók: Afmælisrit til
heiðurs Guðrúnu Erlendsdóttur 3. maí 2006, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag,
2006, bls. 489−497.
Jón KARL HELGASon, LÁRA MAGnúSARDóTTIR, RAnnVEIG SVERRISDóTTIR