Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Qupperneq 10
11
Gunnar Karlsson
Drög að réttarsögu orðlistar á Íslandi
Í þessari grein eru dregnir saman helstu vitnisburðir um réttarreglur, bæði
lög og óformlegar siðareglur, um skáldskap og aðra texta á norrænu mál
svæði á fyrstu öldum Íslands byggðar og er efninu þó fylgt eftir jafnvel
fram á 20. öld ef tilefni virðist til.1 Sögusviðið er einkum íslenskt mið
aldasamfélag, og er þar talinn með starfsvettvangur íslenskra skálda og
sögumanna sem gat náð austur til Svíþjóðar og suður til Danmerkur og
Englands, ef sögum er trúað. Þessar reglur reynast falla í tvo meginflokka
sem mynda allt að því andstæður. Annars vegar eru reglur um eignarrétt
höfunda á textum og fordæming á ritstuldi, hins vegar hömlur við flutn
ingi texta, einkum þeirra sem voru líklegir til að móðga, særa eða skaða.
Segja má að annars vegar séu reglur til verndar orðlistinni, hins vegar regl
ur til verndar fólki gegn henni.
Lítið hefur verið fjallað um þetta efni áður. Í registursbindi Kulturhistorisk
leksikon for nordisk middelalder finnast ekki orðin forfatter, forfatterret, höf-
undur, höfundarréttur, injurie eða ophavsret. Orðin fullrétti, fullréttisorð, hálf-
rétti, hálfréttismenn og hálfréttisorð, sem vísa til þess sem við köllum meið-
yrði, koma nokkrum sinnum fyrir en ekki sem uppflettiorð.2 Í nýjustu og
mestu bókmenntasögu okkar Íslendinga, Íslenskri bókmenntasögu I–V sem
Mál og menning gaf út á árunum 1992–2006, eru engar efnisorðaskrár, en
efnisyfirlit bindanna vísa ekki á neitt um réttarreglur um bókmenntir.3
1 Ég þakka fyrir gagnlegar ábendingar ritrýna undir nafnleynd og sömuleiðis ritstjóra
heftisins.
2 Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder fra vikingetid til reformationstid XXII,
Register, Reykjavík: Bókaverzlun Ísafoldar, 1978, bls. 30, 32, 40, 49, 51, 83. Upp
sláttarorð eru einkennd þannig í registrinu að dálknúmerið er með skáletri.
3 Íslensk bókmenntasaga I, Vésteinn Ólason ritstjóri, Reykjavík: Mál og menning,
1992, bls. 7–9; II, Vésteinn Ólason ritstjóri, Reykjavík: Mál og menning, 1993, bls.
5–7; III, Halldór Guðmundsson ritstjóri, Reykjavík: Mál og menning, 1996, bls.
5–8; IV, Guðmundur Andri Thorsson ritstjóri, Reykjavík: Mál og menning, 2006,
bls. 5–8, V, Guðmundur Andri Thorsson ritstjóri, Reykjavík: Mál og menning,
Ritið 1/2018, bls. 11–37