Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Page 18
19
söguhetjunnar; engar heimildir eru um að neinn höfundanna hafi fengið
þau launuð og sum hafa væntanlega verið persónulegar tjáningar á sorg
og söknuði, þegar ort var um náin skyldmenni. Eina skáldið sem ég þekki
heimild um að hafi hlotið skáldskaparlaun á Íslandi á miðöldum var Egill
SkallaGrímsson, þegar hann fór þriggja vetra gamall í leyfisleysi í veislu
til Yngvars afa síns á Álftanesi á Mýrum. Hann kvað þar dróttkvæða vísu,
að sögn Egils sögu, og fékk að launum þrjá kuðunga og andaregg.32 Hér er
sjálfsagt verið að grínast án þess að í því þurfi að felast skop um bragarlaun.
Egill átti eftir að verða þekkt hirðskáld, og hér er sýnt að krókur hans hafi
snemma beygst til þess sem verða vildi.
Sögumenn
Ekki er hægt að ímynda sér annað en að mikið hafi verið gert að því að
segja sögur á Íslandi – og væntanlega í Noregi – fyrir ritöld og lengur. Um
það er samt fremur fátt sagt í sögum. Því er einkar dýrmæt heimild þáttur
sem hefur verið gefinn út með titlinum „Íslendings þáttur sögufróða“.
Hann er til í tveimur gerðum; önnur er 44. kafli Morkinskinnu; hin er varð
veitt sem sérstakt rit, kölluð hin sjálfstæða gerð þar sem hún er gefin út í
ellefta bindi Íslenskra fornrita. Í Morkinskinnugerðinni er hinn sögufróði
Íslendingur ekki nafngreindur, aðeins sagður „einn íslenzkr maðr, ungr ok
fráligr“, en í hinni gerðinni er hann nefndur Þorsteinn og sagður hafa alist
upp í Austfjörðum. En sameiginlegt efni þáttanna er það að Íslendingurinn
kemur til hirðar Haralds konungs Sigurðarsonar, sem réði fyrir Noregi á
árunum 1046 til 1066, og vildi fá hirðvist. Konungur spurði hvað hann
kynni og sagðist hann kunna sögur. Þá var hann ráðinn til að skemmta
með sagnaflutningi, og gekk það svo vel að hirðmenn gáfu honum klæði
en konungur vopn. Undir jól fer Íslendingur að verða óglaður og segir
aðspurður að nú kunni hann ekki fleiri sögur nema af útferð konungs sjálfs,
en Haraldur hafði verið í Miklagarði. Þá sögu þorði hann hins vegar ekki
að segja í viðurvist konungs. Konungur sagði að það væri sú saga sem sig
langaði mest til að heyra og bað Íslendinginn að byrja hana á fyrsta jóladag
og kvaðst mundu stilla svo til að hún entist út jólin. Það gekk allt eftir, en
konungur lét aldrei neitt uppi um hvernig sér líkaði. Á þrettánda degi jóla
lauk svo sögunni og konungur sagði loks að hún væri hvergi verri en efni
stæðu til. Hann spurði sögumann hver hefði kennt honum söguna, en hann
32 Egils saga Skalla-Grímssonar, Íslenzk fornrit II, Sigurður Nordal gaf út, Reykjavík:
Hið íslenzka fornritafélag, 1933, bls. 80–82 (31. kap.).
DRÖG Að RÉTTARSÖGU ORðLISTAR Á ÍSLANDI