Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Side 21
22
Ritstuldir og endurnýting kveðskapar
Úr því að lofkvæði töldust verðmæti sem hægt var að þiggja greiðslur
fyrir, og mikið þótti komið undir því að þau væru vel ort, má búast við
dæmum um að eitt skáld hafi nælt í kveðskap frá öðru. Sá norræni mið
aldamaður sem oftast hefur verið vændur um þetta er norskt hirðskáld á
10. öld, Eyvindur Finnsson, sem gengur undir viðurnefninu skáldaspill
ir í konungasögum. Þar eru Eyvindi eignuð kvæðin „Hákonarmál“ um
Hákon Noregskonung Aðalsteinsfóstra (21 erindi), „Háleygjatal“ um ætt
Hlaðajarla í Noregi (13 erindi) og 14 lausavísur.41 Því hefur lengi verið
haldið fram að viðurnefni sitt hafi Eyvindur fengið vegna þess að hann
hafi þótt stæla kvæði annarra skálda. Í bókmenntasögu sinni rekur Finnur
Jónsson þessa skýringu til Jóns Sigurðssonar, en bætir við að „raunar marg
ir á undan honum“ hafi haldið þessu fram.42 En tilefni þessarar túlkunar
er sjálfsagt það sem stendur í Fagurskinnu um hvernig Eyvindur orti um
konung sinn, Hákon Aðalsteinsfóstra, eftir að hann hafði látist af sári sem
hann fékk í orustu við Gunnhildarsyni, syni Eiríks konungs blóðaxar og
Gunnhildar drottningar hans. Fagurskinna segir að Hákon
fylkði liði sínu ok lét hirðmenn ok boðsmenn alla saman, sem
Eyvindr segir í kvæði því, er hann orti eptir fall Hákonar, ok setti
hann þat eptir því sem Gunnhildr hafði látit yrkja um Eirík sem
Óðinn byði hónum heim til Valhallar, ok segir hann marga atburði í
kvæðinu frá orrostunni, ok hefir svá:
Gǫndul ok Skǫgul
sendi Gautatýr
at kjósa um konunga,
hverr Yngva ættar
skyldi með Óðni fara
í Valhǫll at vesa.43
41 Poetry from the Kings’ Sagas I. Part 1, Diana Whaley gaf út, Skaldic Poetry of the
Scandinavian Middle Ages I, Turnhout: Brepols, 2012, bls. 171–235. Ummæli fræði
manna um Eyvind skáldaspilli eru flest fundin eftir tilvísunum þessa rits.
42 Finnur Jónsson, Den oldnorske og oldislandske Litteraturs Historie I, København:
G.E.C. Gads Forlag, 1920, bls. 456, „forresten mange för ham“.
43 Ágrip af Nóregskonunga sǫgum. Fagrskinna – Nóregs konunga tal, Íslenzk fornrit
XXIX, Bjarni Einarsson gaf út, Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1985, bls.
86 (12. kap.). Gǫndul og Skǫgul eru valkyrjuheiti, segir útgefandi neðanmáls en
Gautatýr Óðinn.
Gunnar Karlsson