Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Page 25
26
Ögri. Gríma bauðst til að gefa honum dóttur sína. En Þormóður sagðist
ekki hafa skaplyndi til að kvongast og hélt þó áfram að venja komur sínar
í Ögur.
Nú gerðist það að Þormóður kom við í Arnardal á leið sinni út í
Bolungarvík að sækja fisk. Þar hitti hann aðra ekkjudóttur, Þorbjörgu sem
var kölluð Kolbrún af því að hún var dökk yfirlitum. Þá ákvað Þormóður
að spara sér ferðina út í Bolungarvík og bíða samferðarmanna sinna í
Arnardal. Meðan Þormóður dvaldist þar orti hann lofkvæði um Þorbjörgu,
kallaði það Kolbrúnarvísur og flutti í heyranda hljóði. Móðir Þorbjargar,
Katla, gaf honum fingurgull að kvæðislaunum og nafnfesti því að hún gaf
honum líka nafn: Þormóður Kolbrúnarskáld.
Veturinn eftir fór Þormóður aftur að venja komur sínar í Ögur, en
Þórdís tók honum fálega því að hún hafði heyrt söguna um Kolbrúnarvísur.
Þormóður kannaðist ekkert við þá sögu, sagðist hins vegar hafa ort lof um
Þórdísi, sneri vísunum upp á hana og gaf henni kvæðið. Skömmu síðar
birtist Kolbrún Þormóði í draumi og lagði á hann óþolandi augnverk sem
létti ekki fyrr en hann hafði snúið kvæðinu á ný upp á Kolbrúnu og flutt
það þannig við mörg vitni.57
Hér er Þórdís í hliðstæðu hlutverki við konung í sögu Auðuns illskældu;
þeim var báðum boðið upp á áður notaðan kveðskap. En litlum sögum fer
af viðbrögðum hennar eftir að Þormóður sneri vísunum upp á Þorbjörgu
kolbrúnu aftur. Þá hverfa þær báðar úr sögunni, Kolbrún og Þórdís.58
Samt er boðskapur sögunnar í Fóstbræðra sögu auðlesinn: ef karlmað
ur gefur konu kvæði (og væntanlega öfugt) missir hann eignarrétt sinn á
kvæðinu í þeim skilningi að hann má ekki gefa það annarri konu, eins þótt
skipt sé um nöfn.
Kveðskapur og höfundar í sögum
Kveðskapur er notaður öðruvísi í sögum en laust mál á þann hátt að oft
ast er tekið fram hver hafi ort. Í fyrsta þriðjungi Heimskringlu, sögum um
57 Vestfirðinga sǫgur, Íslenzk fornrit VI, Björn K. Þórólfsson og Guðni Jónsson gáfu
út, Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1943, bls. 161–177 (Fóstbrœðra saga,
9.–11. kap.).
58 Lesendur sem rámar í einkar fallega lýsingu á sambúð þeirra Þormóðs og Þórdís
ar í Ögri og dætrum þeirra tveimur munu hafa hana úr Gerplu Halldórs Kiljans
Laxness þar sem uppruni hennar er líklega á Gljúfrasteini í Mosfellsdal fremur en
úr Fóstbræðra sögu. – Halldór Kiljan Laxness, Gerpla, Reykjavík: Helgafell, 1952,
bls. 314–319 (36. kap.).
Gunnar Karlsson