Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Page 29
30
Ekki þarf að koma á óvart þótt litlar móðganir þyrfti, að okkar mati, til
þess að lögin hótuðu skóggangsrefsingu. Þannig eru refsilög Grágásar.
Það sem kemur á óvart er bannið við skáldskap sem ekki var í last eða háð
ung. Tvær tegundir af slíkum skáldskap eru nefndar í Grágásarköflunum
sem eru birtir hér á undan. Annars vegar er loflegur kveðskapur sem er
lengri en fjórðungur vísu, meira en tvö vísuorð, hins vegar mansöngvar um
konur. Jenny Jochens fannst útilokað að ástarsöngvar, eins og mansöngvar
voru á síðari tímum, hafi verið svo illa séðir að þeir væru bannaðir með
lögum; því hlytu mansöngvar þeir sem eru nefndir í Grágás að hafa verið
klúrar vísur um ambáttir sem menn notuðu til kynlífs, enda getur orðið
man merkt ambátt í fornu máli.65 Jafnvel þótt svo væri ekki kann að vera
að það hafi þótt geta spillt orðspori kvenna ef bærist út að þær hefðu verið
lofaðar í kvæði; það gæfi í skyn ástarsamband á milli konunnar og skálds
ins. Þetta mun hafa vakað fyrir Einari Ólafi Sveinssyni þegar hann segir
um mansöngskvæði að væri „við búið, að þau kæmu óorði á konuna“.66
En bæði fyrr og síðar hafa menn stungið upp á skýringu sem mér finnst
mest sannfærandi, að bannið hafi verið sett til þess að koma í veg fyrir að
stúlkur væru tældar með lofkvæðum. Feður og aðrir lögráðendur vildu
helst ráða því hverjum stúlkur væru gefnar.67
Vandséðara er hvers vegna var sett bann við því að ort væri og flutt
opinberlega lof um fullorðna karlmenn. Gunnar Thoroddsen segir fátt
um þetta ákvæði nema að það sé merkilegt en vitnar til bókmenntasögu
Finns Jónssonar um að það sé í rauninni sett til að hindra að menn yrki og
breiði út ljóð sem séu lofleg á yfirborðinu en í rauninni háð.68 Þótt ekki sé
það tekið beinlínis fram í lögunum hefur væntanlega verið gert ráð fyrir
að skáld sem fengi leyfi yrkisefnis síns til að kveða um hann væri þar með
undanþegið banninu, enda var það siður að skáld bæðu konunga um að
65 Jenny Jochens, „From Libel to Lament: male manifestations of love in Old Norse“,
From Sagas to Society: Comparative approaches to early Iceland, Gísli Pálsson gaf út,
Enfield Lock: Hisarlik Press, 1992, bls. 247–264.
66 Einar Ól. Sveinsson, Íslenzkar bókmenntir í fornöld, Reykjavík: Almenna bókafélagið,
1962, bls. 88.
67 Lars Lönnroth, „Skírnismál och den fornisländska äktenskapsnormen“, Opuscula
Septentrionalia: Festskrift til Ole Widding 10.10. 1977, Hafniæ: C.A. Reitzels bog
handel, 1977, bls. 154–178, hér bls. 163; Bjørn Bandlien, Å finne den rette: Kjærlig-
het, individ og samfunn i norrøn middelalder, [S.l.]: Den Norske Historiske Forening,
2001, bls. 64–70; Gunnar Karlsson, Ástarsaga Íslendinga að fornu: Um 870–1300,
Reykjavík: Mál og menning, 2013, bls. 118–119.
68 Gunnar Thoroddsen, Fjölmæli, bls. 23, 25.
Gunnar Karlsson