Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Qupperneq 52
54
ekki má gleymast að Egill var líka „menningarviti“. Hann kenndi meira að
segja ljóðagerð.
Hjá Agli er fátt um fína drætti, en eins og vikið hefur verið að getur
lymska, úrdráttur, ekki síður verið ógnandi en yfirdrifinn stíll Egils.
Tökum Skarphéðin Njálsson sem dæmi, miklu hræðilegri mann, því að
ólíkt Agli er hann ákveðinn í að fara að reglum í einu og öllu. Þegar hann
er fyrst kynntur til sögunnar í Njálu segir að hann sé „lǫngum vel stilltr“
þrátt fyrir að vera „mikill maðr vexti ok styrkr, vígr vel, [...] skjótráðr ok
øruggr, gagnorðr og skjótorðr“. En svo segir einnig: „hann var [...] fǫlleitr
ok skarpleitr, [...] ok lá hátt tanngarðrinn, munnljótr nokkut [...]“.32 Með
öðrum orðum, það er eitthvað úlfslegt við Skarphéðin. Hér er ekki tóm
til að gera grein fyrir smáatriðum þess hve meistaraleg persónusköpun
hans er en úr þessum ófríða munni berast hugvitsamlegar og tortímandi
móðganir. Hann glottir líka, höfundur nefnir níu skipti, og glottið sprettur
annað hvort fram af þórðargleði eða veitir ögrandi innsýn í að undir niðri
kraumar ofbeldið sem hann hemur að mestu, „vel stilltur.“ Glott hans er
ógleymanlegt öllum lesendum fornsagnanna.
Skarphéðinn er djarfur í bardaga en drepur aðeins einu sinni í órétti, og
víg og áflog verða aldrei aðalsmerki hans, jafnvel þegar rétturinn er hans
megin. Hún jaðrar við spjátrungshátt þessi viðeigandi framganga hans, en
í siðprýðinni kann að vera falinn váboði. Höfundurinn og Skarphéðinn
leggja í sameiningu grunn að því að yfirburðir hans séu ógnandi og lesand-
inn fær á tilfinninguna að sagan snúist um Skarphéðin, þrátt fyrir að þrír
eða fjórir aðrir komi þar oftar fyrir og taki oftar til máls.
Skoðum þetta nánar. Skarphéðinn hefur verið brenndur inni á heim-
ili sínu ásamt foreldrum og bróður. Þegar brennuvargarnir eru á bak og
burt koma vinir og liðsmenn hinna látnu á vettvang eyðileggingarinnar
og grafa líkin úr öskunni. Þar finnst Skarphéðinn með fætur afbrunna upp
að hnjám en þó ekki fallinn. óbugaður jafnvel af dauðanum, með fæturna
brunna burtu hafði honum tekist að skorða sig uppi við gaflhlaðið. Augun
eru opin; hann hefur bitið á kampinum. Menn bera hann út og færa af
klæðum og þar sem þeir virða fyrir sér limlest og brunnið líkið, á meðan
það starir á móti, hefur höfundur orð á því að „allir menn mæltu þat, at
betra þœtti hjá Skarpheðni dauðum en ætluðu, því at engi maðr hræddisk
hann“.33 Og þetta voru vinir hans!
32 Brennu-Njáls saga, Íslenzk fornrit XII, Einar ól. Sveinsson gaf út, Reykjavík: Hið
íslenzka fornritafélag, 1954, bls. 70.
33 Brennu-Njáls saga, bls. 344.
WIllIaM Ian MIller