Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Page 61
63
hún ól jafnvel af sér staðfestingu Brands biskups á því sem enginn efaðist
um auðsæja vitsmuni Sturlu − og ábendingu um það sem allir efuðust um
− góðan vilja og ásetning. En síðan hvenær ætti slík vitneskja svo sem að
hafa skipt máli um getu Sturlu til að setja fram trúverðuga hótun? Það var
á allra vitorð að vissara væri að vera á varðbergi gagnvart honum, hann var
margfaldur í roðinu eins og óðinn.
Algengur háttur þeirra sem hafa mikinn metnað er að reyna sífellt á
þolmörk, fara yfir strikið, ögra, hörfa svo ef mótstaðan er slík að það borgar
sig ekki að taka slaginn í bili. Þetta er svo útbreidd tækni í stjórnmálum, í
agaðri harðfylgni og þar sem barist er um yfirburði, að álitshnekkir verður
lítill við einn og einn afleik, því að hver og einn þeirra er nægilega léttvægur
til þess að hægt sé að segja með réttu að hann skipti varla máli. Þannig var
því til dæmis varið í þrálátum stríðsátökum í Frakklandi á elleftu og tólftu
öld þegar herir voru í sífellu sendir fram (en síðan dregnir til baka án þess
að hafa tekið þátt í bardaga) og að setið var um kastala en umsátrinu síðan
aflétt. Að sækja fram en hörfa síðan er viðbragð í þrátefli og því kemur
engum til hugar annað en að menn rísi upp jafnharðan þótt þeir lendi í
dálitlum mótvindi og hefjist aftur handa við að beita þrýstingi og ögra. Vel á
minnst, þetta var ekki í fyrsta sinn sem Jón hafði yfirbugað Sturlu.47
Þar fyrir utan er það sérstök tækni við að byggja upp ógnaryfirburði
að prófa að draga sig í hlé og reyna aftur, að koma sér upp því orðspori að
maður gefist ekki svo auðveldlega upp, sýni þrautseigju. Hver veit nema
gagnlegra sé að fólk viti að maður geti tekið tapi og snúið aftur, en að
njóta svo mikilla yfirburða að ekki nokkur maður þori að reyna sig. Þannig
ryðga menn og verða sjálfumglaðir. Eftir hvert tap má koma því til skila
næst: Þetta er fyrir þá sem eru nógu snjallir og láta ekki hræða sig svo
auðveldlega.
47 Sturlu saga, 1954, bls. 164−168.
HAFT Í HóTUNUM