Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Qupperneq 68
71
samningum viðurkenndi konungur réttindi klerkastéttarinnar samkvæmt
kirkjulögum, privilegium fori.9 Er hug takið andleg málefni þar fyrst notað
formlega sem andstæða veraldlegra hluta í norrænum lagatexta: „Hefði
[…] nokkur leikmaður að kæra andalegt málefni þá skyldi hann kæra fyrir
biskupi hans. En hver sem hefði veraldlegt málefni, hvort sem hann væri
heldur prestur eður leikmaður, þá skyldi hann kæra fyrir kóngi ellegar fyrir
þeim dómara sem kóngur hefir til skipað að gera rétt manna í millum.“10
Konungur hafði samþykkt fyrir sitt leyti að kirkja skyldi hafa sjálfstætt
dómsvald yfir andlegum hlutum, en á þessu stigi málsins virðist það vald
ekki hafa náð yfir öll málefni klerka, því að sækja mátti þá fyrir dómstólum
konungs ef málefnið taldist veraldlegt.
Fram kemur í Hákonar sögu að Vilhjálmur kardínáli hafi í Noregs-
heimsókn sinni lýst furðu sinni á því að Ísland „þjónaði ekki undir ein-
hvern konung sem öll önnur í veröldinni“.11 Þessi ummæli tel ég að megi
skilja sem svo að Íslendingar hafi sóst eftir sambærilegum samningum
við yfirvöld í Róm, en verið hafnað af því að samningsaðili kirkju hlaut
að vera konungur. Þetta dró dilk á eftir sér hér og aðeins sex árum eftir
að Norðmenn lofuðu kirkju frelsi þar í landi, eða árið 1253, samþykkti
Alþingi Íslendinga „að þar sem á greindi Guðs lög og lands lög þá skulu
Guðs lög ráða“.12
Alþingissamþykktin var íslensk hliðstæða samnings Noregskonungs við
kardínála. Hún fól í sér loforð um nýjar undirstöður löggjafar og fyrirætl-
un um breytingar á lögum landsins til samræmis við almennu kirkjulögin.
Með henni var ekki átt við að lög á Íslandi þyrftu öll að vera til samræmis
547, er þýtt sem „vera í fullum náðum og öllum og allt sitt frelsi hafa í öllum þeim
hlutum sem henni ber til að hafa“, DI I 549.
9 Sverre Bagge, „Kirkens jurisdiksjon i kristenrettssaker“, bls. 149.
10 DI I 550, skáletrun mín. Um aðild konungs og leikmanna að skipan kardínála sjá
Láru Magnúsardóttur, Bannfæring og kirkjuvald á Íslandi 1275–1550: Lög og rann-
sóknarforsendur, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2007, bls. 339 o.áfr.
11 Hákonar saga Hákonarsonar etter Sth. 8 fol., AM VII 4to og AM 304 4to, Norrøne
texter 2, Marina Mundt gaf út, Osló: Norsk historisk kjeldeskrift-institutt, 1977,
bls. 144.
12 Samþykktin frá 1253 er prentuð í Fornbréfasafni, DI II 1. Heimild fyrir samþykkt-
inni er 16. kapítuli kristinréttar Árna Þorlákssonar frá 1275 sem hér er notaður eins
og hann er settur fram hjá Magnúsi Lyngdal Magnússyni: „Kristinréttur Árna frá
1275. Athugun á efni og varðveizlu í miðaldahandritum“, Magnús Lyngdal Magn-
ússon bjó til útgáfu, ritgerð til M.A.-prófs í sagnfræði við Háskóla Íslands, 2002.
Hann hefur verið gefinn út með nútímastafsetningu, en þar eru kapítulanúmer
önnur: Járnsíða og Kristinréttur Árna Þorlákssonar, útg. Haraldur Bernharðsson,
Magnús Lyngdal Magnússon og Már Jónsson, Reykjavík: Sögufélag, 2005.
LOFTUR HELGASON FER TIL BJöRGVINJAR