Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Page 118
139
sem einskorðaðist lengi við fjölmiðla undir stjórn karlmanna. Í staðinn
fundu þær oft hjáleiðir að umræðunni sem skiluðu rödd þeirra þó aðeins
til hluta almennings. Með tilkomu netsins hafa konur öðlast greiðari leið
að opinberri umræðu og mál þeirra rata þar með oftar í almenna fjölmiðla.
Salter ræðir þrjú raunveruleg dæmi um konur sem sögðu opinskátt frá
kynferðisbrotum á netinu og reyndu þannig að ná fram réttlæti eða jafn-
vel hefndum gegn ofbeldismönnum. Hann telur að hið gamla ægivald
fjölmiðla og dómskerfa sé ekki það sama nú á tímum og að önnur lögmál
gildi gjarnan á netinu. Þar er að myndast sérstök réttlætiskennd og ekki er
alltaf gætt jafnræðis gagnvart sakborningum og einstaklingar eru gjarnan
taldir sekir áður en sekt þeirra er sönnuð, ólíkt því sem lög kveða á um.5
Hlíðamálið kann að vera dæmi um að svipuð réttarvitund er að verða ofan
á í þjóðfélagsumræðunni hér á landi, enda voru margir þeirra sem tjáðu
sig um málið tilbúnir að taka dómsvaldið í sínar eigin hendur og for-
dæma mennina fyrir afbrot. Margir telja því nálgun aðgerðarsinna heldur
neikvæða og hafa til dæmis talað um hefnd á meintum brotamönnum,
þar sem lagalega á allt opinbert dómsvald að vera í verkahring réttarkerf-
isins.6 Hins vegar er ekki til ein algild skilgreining á réttlæti og niðurstaða
dómara þarf ekki að samræmast réttarvitund almennings – og öfugt. Ef
löggjafi og dómstólar sinna ákveðnum málaflokkum ekki nægilega eru
líkur á að fólk leiti annarra leiða, eins og er að gerast víða í samfélaginu.
Í yfirstandandi #Metoo-byltingu er barist fyrir rétti kvenna til að stöðva
áreiti og ofbeldi. Þeim aðgerðum er oftast stefnt að valdsterkari karlmönn-
um og þó að sumir álíti þær vægðarlausar þá er í grunninn verið að skila
skömm sem ekki á heima hjá brotaþolum. Við slíkar aðgerðir getur meint-
ur ofbeldismaður í versta falli misst stöðu eða vald og því er seint hægt að
tala um hreina hefnd. Hér verður látið liggja á milli hluta hvort viðbrögð
þeirra sem harðast fram gengu í Hlíðamálinu geti flokkast undir hefnd; en
í staðinn verða tvær nýlegar skáldsögur skoðaðar sem innlegg í sömu þjóð-
félagsumræðu. Báðar fjalla þær um kynbundið ofbeldi og lýsa mögulegum
leiðum brotaþola og aðstandenda til að takast á við afleiðingar glæpa sem
ekki fá meðferð í réttarkerfinu. Eins og sýnt verður fram á birtast aðgerðir
5 Michael Stalker, „Justice and Revenge in Online Counter-publics: Emerging
responses to sexual violence in the age of social media“, Crime Media Culture,
9(3)/2015, bls. 225–242, hér bls. 227–229.
6 Sjá t.d.: Ritstjórn, „Lögmaður ósáttur: Alltof mikil umræða um kynferðisbrot á
Íslandi“, Stundin.is 29. október 2015, sótt 28. febrúar 2018 af https://stundin.is/
frett/logmadur-osattur-mikil-umraeda-um-kynferdisbrot-is/.
HEiMATiLBúið RéTTARkERFi