Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Page 133
154
hefst þó á samtali þolenda og gerenda, oftast í gegnum milliliði.
Þolandinn orðar sína upplifun við geranda og fer fram á að hann
gangist við brotum sínum og axli ábyrgð á þeim. Samtalið miðar
að því að gerandi átti sig á skaða sem hann hefur valdið, jafnvel
þótt það hafi verið ómeðvitað – sem og að gerandinn viðurkenni
áhrif gjörða sinna á þolanda/þolendur og nærsamfélagið. Þolandi
setur gerandanum skilyrði – sem geta verið mismunandi í hverju
tilfelli fyrir sig – en snúa í grundvallaratriðum að því að gerandi
viðurkenni brot sín og gangist við þeim með einhverjum hætti; gefi
þolanda svigrúm til að ná bata; og skuldbindi sig til þess að horf-
ast í augu við skaðlega hegðun sína og hugsanamynstur sem leiða
til ofbeldis. [...] Hugmyndafræðin hvetur til þess að unnið sé gegn
hverslags einangrun eða útskúfun geranda. Mælt er gegn því að
gerandi sé fordæmdur eða úthrópaður opinberlega. Fremur skuli
vettvangur ábyrgðarferlisins vera það nærsamfélag þar sem ofbeldið
átti sér stað, með tilheyrandi aðstoð fagaðila eða sérfræðinga. [...]
Grunnforsenda ábyrgðarferlisins er viðurkenning á réttmæti upplif-
unar þolanda, óháðum lagalegum skilgreiningum á saknæmu athæfi.
Ferlið er sett fram sem þolendamiðað, þ.e. það tekur mið af þörfum
þolenda í því ástandi sem hann kann að vera eftir að hafa orðið fyrir
ofbeldi.33
Í skáldsögunni er þessari forskrift fylgt en þó með einni áberandi undan-
tekningu; ferlinu fylgir opinber úthrópun, einangrun og útskúfun aðalpers-
ónunnar og sögumannsins Sölva. Í grunninn fjallar Gott fólk um birting-
armyndir ofbeldis í langtímasamböndum. Ofbeldið í verkinu er á gráu svæði
og er því ekki eins afgerandi og í Kötu. Samhliða er öllum persónum í sögu
Vals ljóst að þannig mál getur reynst erfitt að fá útkljáð fyrir dómstólum.
Sagan hefst þegar Sölva er afhent bréf frá Söru þar sem hún lýsir fram-
komu hans í sambandi þeirra. Hún kallar hann meðal annars yfirgangssegg
33 Gréta kristín Ómarsdóttir, „Ábyrgðarferlið“, [birt á heimasíðu Þjóðleikhússins
í tilefni af sýningu byggðri á skáldsögunni Gott fólk] sótt 20. ágúst 2017 af www.
leikhusid.is/Syningar/i-syningu/syning/2354/gott-folk. Síðan var tekin niður þegar
nýtt leikár hófst haustið 2017. Einnig komu fram sambærilegar upplýsingar og
finna má í báðum skáldsögunum sem hér eru til umfjöllunar, til dæmis að ábyrgð-
arferlið hafi fyrst verið kynnt opinberlega hér á Íslandi í Róttæka sumarháskólanum
árið 2011. En ferlið á rætur að rekja til anarkista í Bandaríkjunum og róttækra
feministahreyfinga. Á netinu má nálgast mikla umfjöllun um ábyrgðarferlið, sem
kallast „accountability process“ á ensku, en minna er um fræðilega athugun á því.
Einar Kári Jóhannsson