Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Side 162
167
lútherskur kristindómsskilningur varð ríkjandi í kjölfar siðaskipta. Með
öðrum orðum: Réð lútherska siðbótin úrslitum um framkomu hins mið-
stýrða þjóðríkis sem náði hátindi sínum í einvaldsríkjum 17. og 18. aldar
og síðar velferðarríkjum 20. og 21. aldar?5 Allt eru þetta spurningar sem
vert er að glíma við nú er lútherskan hefur verið við lýði í hálfa þúsöld. Í
þessari grein verður þó fyrst og fremst vikið að nokkrum grundvallarsjón-
armiðum sem vert er að hafa í huga varðandi rannsóknir á siðbótinni og
helstu afleiðingum hennar einkum hér á landi.
Hér verður gengið út frá að siðbótin en þó einkum siðaskiptin sem telja
má beina afleiðingu hennar á hinu samfélagslega og/eða pólitíska sviði hafi
falist í seigfljótandi þróun. Er þá annars vegar átt við að um langdregna og
stigskipta þróun hafi verið að ræða er teygt hafi sig yfir nokkra áratugi.6
Líta má svo á að þar með hafi þróunin verið seigfljótandi á lengdina. Á
hinn bóginn er litið svo á að þróunin hafi verið seigfljótandi á breiddina
eða teygt sig yfir fjölmörg svið sem nú á dögum er venja að halda að meira
eða minna leyti aðgreindum. Er þar átt við trúarlegt, kirkjulegt, pólitískt,
félags- og menningarlegt svið. Á 16. öld voru takmörkin þarna á milli alls
ekki eins skýr sökum þess að heimsmynd fólks var heildstæðari.
Siðbót, siðaskipti, siðbreyting
Hér er heitið siðbót notað blygðunarlaust um kirkjugagnrýni Lúthers og
þá trúar- og guðfræðilegu hreyfingu sem af henni spratt þrátt fyrir að
vissulega sé það ekki hlutlaust ef það er tekið bókstaflega.7 Ekki er hins
vegar tekin afstaða til þess hér hvort allt sem Lúther kenndi eða aðhafðist
hafi falið í sér umbætur eða framfarir. Hér er einvörðungu gengið út frá
þeim skilningi sem almennt hefur verið viðtekinn í lúthersrannsóknum
um langt skeið: sem sé að Lúther hafi ekki haft í hyggju að kljúfa miðalda-
kirkjuna eða stofna nýja kirkjudeild heldur einvörðungu ætlað að vekja
máls á gagnrýniverðum siðum og venjum í kirkju sinni og stuðla þannig að
5 Heimir Steinsson, „Samfélagsáhrif siðbótarinnar“, Lúther og íslenskt þjóðlíf: Erindi
flutt á ráðstefnu um Martein Lúther, er haldin var 4. nóvember 1983 í tilefni þess að 500
ár voru liðin frá fæðingu hans, ritstj. Gunnar Kristjánsson og Hreinn Hákonarson,
Reykjavík: Hið íslenska Lúthersfélag, 1989, bls. 103–117. Sjá og ýmsar greinar í
Kirken og Europa, ritstj. Jakob Balling, Århus: Aarhus Universitetsforlag, 2000.
6 Hjalti Hugason, „Hvenær urðum við lúthersk?“, bls. 77–105.
7 Frekar um siðbót, siðaskipti og siðbreytingu sjá Hjalti Hugason, „Heiti sem skapa
rými: Hugleiðing um heiti og hugtök í siðaskiptarannsóknum“, Ritið 3/2014, bls.
191–229.
SEiGFLJótANDi SiðASKipti