Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Síða 174
179
sinn og var líklega fyrsti Íslendingurinn til að lifa kulnun í starfi ef ekki
enn hastarlegri skakkaföll. Í tíð eftirmanns hans, Gísla Jónssonar (bisk-
up 1558–1587), og enn frekar Odds Einarssonar (biskup 1589–1630) tók
landið aftur á móti að rísa í Skálholtsbiskupsdæmi og um svipað leyti í
tíð Guðbrands Þorlákssonar (biskup 1571–1627) fyrir norðan. Spurning
er hvort formleg og óformleg valdastaða þessara biskupa og ýmissa eft-
irmanna þeirra einkum á 17. öld hafi verið öllu veikari en miðaldabiskup-
anna sem vart rísa allir undir þeirri lýsingu að þeir hafi borið ægivald yfir
landsmönnum. Í því sambandi má líka spyrja hvort vald biskupa jafnvel
yfir höfðingjum hafi einvörðungu eða aðallega hvílt á auðæfum kirkjunnar
eins og Viðar Hreinsson lætur liggja að í staðalmynd sinni. Spurning er
hvort andlegt og trúarlegt vald hafi þar ekki einnig valdið miklu. Fer mat í
því efni fyrst og fremst eftir því viðhorfi sem gengið er út frá hverju sinni.
Í þessum hluta staðalmyndar sinnar á Viðar þó líklega fyrst og fremst við
veraldlegt vald.
Enn er ástæða til að staldra við ummæli þess efnis að kirkjan hafi þegar
við siðaskiptin verið kirfilega seld undir konungsvaldið en af ummælum
þess efnis má draga þá ályktun að hér hafi komist á ríkiskirkja strax í kjölfar
þeirra. Það er einföldun. Lengi eftir siðaskipti naut kirkjan á Íslandi marg-
háttaðrar sérstöðu þótt kirkjuskipan Kristjáns iii hafi verið innleidd hér
formlega.49 Stafaði það af kyrrstöðu samfélagsins sem vann gegn hröðum
breytingum á kirkju og kristnihaldi sem og því hve langt var í miðstöðv-
ar valdsins og hve möguleikar hins miðstýrða konungsvalds til afskipta
hér voru enn takmarkaðir. Þegar um miðja síðustu öld færði Björn Karel
Þórólfsson rök að því að hér hafi komist á landskirkja í kjölfar siðaskipta
sem um margt hafi mótast af fyrirkomulagi miðaldanna og öðlast ýmiss
konar sérstöðu miðað við kirkjuna í Danmörku sem þróaðist hraðar til
lútherskrar áttar. Ríkiskirkju taldi hann aftur á móti ekki hafa komist hér á
fyrr en komið var fram á 18. öld og hafi munað þar mest um vísitatíuferð
Ludvigs Harboe (1709–1783) rétt fyrir miðja öldina.50 Má vel fallast á það
mat.
49 Hjalti Hugason, „Evangelisk traditionalism – Gudbrandur thorlákssons kon-
solideringssynoder under 1570- och 1590-talen“, Reformationens konsolidering i de
nordiska länderna 1540–1610, ritstj. ingmar Brohed, ósló: Universitetsforlaget,
1990, bls. 96–118.
50 Björn Karel Þórólfsson, „inngangur“, Biskupsskjalasafn, Skrár þjóðskjalasafns iii,
Reykjavík: [án útg.], 1956, bls. 7–76, hér bls. 68. Loftur Guttormsson, Frá siðaskipt-
um til upplýsingar, bls. 309–313.
SEiGFLJótANDi SiðASKipti