Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Side 182
187
hans daga [þ.e. Gissurar 1540–1548 – innsk. höfundar], og líka um
daga herra Marteins, og fyrst framan af tíð herra Gísla, þar til þeir
gömlu allir, prestar og leikmenn, féllu frá, en úngir komu upp aptur
í þeirra stað; og um þennan allan áður greindan tíma varð mikil
presta fæð, því enginn vildi vígjast, því þeir sem að áttu foreldrana
(á) lífi bönnuðu þeim það, en þeir vígðust sem engan áttu að; varð
þá einn prestur (að) hafa iij eður iiij kirkjur, og urðu að vígja hvern
sem þeir náðu, þegar hann var með nokkru móti þar lærður til, að
hann læsi; líka vel fengu þeir nefndarmennina,68 og vígðu þá [...].69
Höfundur þessarar ritgerðar hefur gert könnun á kynslóðaskiptum í
presta stétt í kjölfar lögformlegra siðaskipta í hvoru biskupsdæmi um sig
(í Skálholtsbiskupsdæmi miðað við 1541 en áratug síðar í Hólabiskups-
dæmi) á grundvelli prentaðra gagna og þá einkum Prestatals og prófasta.70
Í Skálholtsbiskupsdæmi voru tæplega 120 prestaköll með dómkirkju-
prestsembættinu í Skálholti en án klausturstaðanna. Í Hólabiskupsdæmi
voru aftur á móti rúm 60 prestaköll með Hólum og klausturstöðunum
þremur. Á landinu öllu voru því um 180 prestaköll. Heimildir vantar um
31 prestakall og tæp 20 virðast hafa verið ómönnuð um siðaskipti. Þess
skal getið að fjöldi prestakalla segir að sönnu ekkert um heildarfjölda
presta í landinu þar sem í máldögum og annars staðar gat verið kveðið
á um að fleiri en einn prestur þjónaði sömu kirkju. talið hefur verið að
seint á 15. öld hafi fjöldi sóknarpresta á landinu öllu verið 400–450. Loftur
Guttormsson taldi hins vegar að um siðaskipti hafi enn ekki verið búið
að vinna upp prestafæð sem fylgdi í kjölfar plágunnar síðari sem gekk
68 Nefndarmenn voru þeir sem tilnefndir voru til alþingisreiðar og úr hópi þeirra voru
lögréttumenn valdir til að taka þátt í dómum og löggjafarstarfi. Einar Laxness, Ís-
lands saga ii, Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1995, bls. 144. Jónsbók: Lögbók Íslendinga
hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð
árið 1578, Már Jónsson tók saman, Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 8, ritstj.
Davíð ólafsson, Már Jónsson og Sigurður Gylfi Magnússon, Reykjavík: Háskóla-
útgáfan, 2004, bls. 81–83.
69 Jón Egilsson, „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar, með formála, athugagreinum og
fylgiskjölum eptir Jón Sigurðsson“, Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu
og nýju i, Kaupmannahöfn: Hið íslenska bókmenntafélag, bls 15–136, hér bls. 85.
Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Haldórssonar í Hítardal með viðbæti i,
Reykjavík: Sögufélag, 1903–1910, bls. 105.
70 Sveinn Níelsson, Prestatal og prófasta á Íslandi, 2. útg. með viðaukum og breyting-
um eftir dr. Hannes Þorsteinsson, Björn Magnússon sá um útgáfuna og jók við,
Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1950. Elvar ingimundarson stud. theol.
sá um efnistöku.
SEiGFLJótANDi SiðASKipti