Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 187
192
m.a. bent á í greinum sínum gegn aflátinu en í ritinu lýsti hann aflátssöl-
unni sem valda- og arðráni páfa á þýsku þjóðinni sem kirkjuleg yfirvöld
hefðu látið undir höfuð leggjast að bregðast við.77 Því kallaði hann hina
veraldlegu valdsstétt til verndar þjóðinni og kirkjunni.78 Hann ætlaðist til
að veraldlega valdið gripi inn í kirkjumálin í því tómarúmi sem myndaðist
þegar kirkjuyfirvöld í Þýskalandi og Róm brugðust skyldum sínum og sið-
bótarhreyfingin í Þýskalandi klofnað frá alþjóðakirkjunni og var þar með
án myndugrar forystu þegar hreinu guðfræðilegu sviði sleppti. Þessa vænt-
ingu sína til yfirvaldanna byggði hann á að valdamennirnir væru skírðir
til kristinnar trúar og væru vegna valdastöðu sinnar í samfélaginu í betri
aðstöðu en aðrir til að koma á umbótum þegar kirkjuvaldið hafði brugðist.
Um þetta sagði hann m.a.:
En þar sem hin veraldlega valdstétt er skírð á sama hátt og við og
hefur sömu trú og sama fagnaðarerindi, verðum við að leyfa þeim
að vera prestar og biskupar og líta á embætti þeirra sem slíkt; þ.e. að
það tilheyri og sé gagnlegt kristnum söfnuði.79
Hér ákallaði Lúther aðalinn og aðra valdsherra, konunga og keisara, um
að koma kirkjunni til hjálpar sem skírðir, trúaðir, kristnir einstaklingar sem
stöðu sinnar vegna hefðu einstæða möguleika til að standa vörð um fagn-
aðarerindið. Það gefur svo augaleið að þessi áskorun hafði pólitísk áhrif og
opnaði sóknarfæri fyrir nýtt, miðstýrt ríkisvald inn á hið kirkjulega svið.
Ekki ber að líta á þessi hvatningarorð Lúthers sem guðfræðilega kenn-
ingu hans um tengsl ríkis og kirkju sem mögulegt sé að byggja á nú á
dögum. Hann er þekktari fyrir að hafa greint skýrt á milli andlegs og ver-
aldlegs valds og hlutverka hvors um sig.80 Þvert á móti ber að skoða ákall
77 Marteinn Lúther, Til hins kristna aðals þýskrar þjóðar: Um siðbót þeirrar kristilegu
stéttar árið 1520, ísl. þýð. og inng. eftir Vilborgu Auði Ísleifsdóttur, Reykjavík:
Hið íslenska bókmenntafélag, 2012, bls. 75–83, 89–93, 94, 99, 100–102, 104–106,
170–171.
78 Sama rit, bls. 45, 64–66, 93–94, 95, 96, 98, 100, 134–135, 154–155–185.
79 Sama rit, bls. 53. Þessi yfirlýsing helst í hendur við áherslu Lúthers á hinn almenna
prestdóm, höfnun hans á þeim mun sem gerður var á vígðum og óvígðum um hans
daga og áherslu á að hinni andlegu stétt beri aðeins að fara með sjálfstætt vald á
andlegu sviði er næði til bænar, boðunar, sálgæslu og þjónustu að sakramentunum.
Sjá sama rit, bls. 63, 107, 109.
80 Hér er vísað til svokallaðrar tveggja ríkja kenningar sem leidd hefur verið út af
ritum Lúthers. Samkvæmt henni er greint á milli hins veraldlega „ríkis“ og hins
andlega sem bæði þiggja vald sitt frá Guði og miðar kenningin að því að skýra
hlutverk hvors um sig, stuðla að réttri samvinnu þeirra og fyrirbyggja samkeppni
Hjalti Hugason