Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Page 199
205
þær lifa í reiðir sig á framvindu aðstæðu-líkansins sem sýnir vel hve sam-
ofin líkönin eru hvert öðru.22
Vegna þess hve bakgrunnur manna, reynsla þeirra og þekking getur
verið ólík er líklegra en ella að þeir beiti mismunandi skemum á skáldskap-
inn sem þeir lesa sem verður til þess að hugarlíkönin sem rísa upp verða
ólík og þar af leiðandi einnig tilfinningaleg viðbrögð þeirra gagnvart text-
anum. Slíkar vísbendingar gefa alltént niðurstöður rannsóknanna sem lýst
verður hér á eftir. Áður en fjallað verður um niðurstöður rannsóknanna
verður gerð grein fyrir aðferðum þeirra og markmiði.
Almennt um rannsóknirnar
Rannsóknirnar sem hér verður greint frá fólust í því að kanna viðbrögð
lesenda við skáldskap, en þær voru báðar eigindlegar. Tekið var einstak-
lingsviðtal við hvern og einn þátttakanda og hann beðinn um að ræða
upplifun sína af lestri textabrots úr skáldverki eftir Vigdísi Grímsdóttur.
Í annarri rannsókninni lásu þátttakendur brot úr Þögninni en í hinni úr
Þegar stjarna hrapar. Bæði textabrotin fjölluðu um listir, annars vegar um
tónlist og hins vegar um myndlist, og að viti rannsakanda höfðuðu þau
bæði til tilfinninga. Í báðum textum var rætt um dauðann en þó með afar
ólíkum hætti.
Alls tóku tuttugu manns þátt í hvorri rannsókn fyrir sig. Í fyrri rann-
sókninni voru tíu einstaklingar menntaðir í klassískri tónlist á aldrinum
20–30 ára og tíu manns á aldrinum 25–69 ára sem ekki höfðu tónlistarnám
í farteskinu. Í seinni rannsókninni voru einnig tveir rannsóknarhópar, þar
af tíu myndlistarmenn á aldrinum 43–81 árs og tíu einstaklingar á aldrinum
25–69 ára sem ekki höfðu lagt stund á myndlist. Rannsóknin fólst meðal
annars í því að kanna hvort menn brygðust mismunandi við list miðað við
22 Sjá sama heimild, bls. 257–260. Rick Busselle og Helena Bilandzic nota kenninguna
um hugarlíkönin til að útskýra hvernig lesandi býr til merkingu út frá frásögn en
í skrifum sínum fjalla þau meðal annars um hlutverk tilflutnings (e. transportation)
í því ferli en þau líta svo á að hann verði þegar lesandi smíðar sér hugarlíkön af
frásögninni sem hann les. Þau líkja tilflutningi inn í heim skáldskaparins við flæði
og segja að hann orki þannig að lesandi missi, í lengri eða skemmri tíma, næmi á
það sem er að gerast í kringum hann í virka heiminum (e. actual world) sem hann
lifir og hrærist í; það kunni að verða til þess að hann „gleymi sér“ og/eða „missi
allt tímaskyn“. Þau nefna einnig að samsömun með persónum, þ.e.a.s. þegar les-
andi tekur sér sjónarhorn persónu, sé hluti af ferlinu. Sjá sama heimild, bls. 256
og 272.
SAMLÍðAN OG SÉRFRæðINGAR