Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1971, Page 86
ÞÓR MAGNÚSSON
ENDURHEIMT FORNALDARSVERÐ
Það er óalgengt, að íslenzkir forngripir, sem fluttir hafa verið úr
landi, eigi afturkvæmt til Islands, einkum þó þeir, sem lent hafa á
söfnum ytra. Söfnum er það yfirleitt kappsmál að halda sem flest-
um gripa sinna, enda má það kallast meginregla að afhenda ekki
safngripi nema sérstakar ástæður komi til.
Það var því óvænt gleði er þjóðminjavörður Svíþjóðar, Islands-
vinurinn Sven B. F. Jansson tilkynnti við opnun sýningarinnar Is-
landia í Statens historiska museum í Stokkhólmi hinn 14. september
1971, að safnið hefði ákveðið að afhenda Þjóðminjasafni íslands til
ævarandi varðveizlu víkingaaldarsverð, komið til safnsins frá Is-
landi í upphafi þessarar aldar. Þetta var einkar kærkomið Þjóðminja-
safni íslands, þar sem sverðið er mjög merkilegt meðal íslenzkra
fornminja og bezt varðveitta sverð, sem fundizt hefur hér á landi.
Ljóst er, að Statens historiska museum gerði þarna undantekningu
frá reglunni um að afhenda ekki aftur hluti úr safninu, enda þurfti
ríkisstjórnarheimild til þessarar afhendingar. Hins vegar mátti lög-
um samkvæmt ekki afhenda sverðið sem gjöf, heldur til ævarandi
varðveizlu (stándig deposition, eins og prófessor Jansson komst að
orði) í Þjóðminjasafninu, sem mun í rauninni þýða, að þess verði
aldrei krafizt aftur.
Þetta sverð á sér nokkra sérstöðu meðal sverða fundinna á íslandi.
Það fannst um aldamótin síðustu í Hrafnkelsdal í Norður-Múla-
sýslu. Ekkert er vitað um fundaratvik nema það litla, sem lesa má
í blaðaskrifum þeirra Þorsteins skálds Erlingssonar og H. I. Ernst
lyfsala á Seyðisfirði, en Ernst keypti sverðið af finnandanum. Þor-
steinn skrifar í blaðið Bjarka, sem hann stýrði, 25. júní 1900 (5.
árg. bls. 99):
„Maður fann hjer gull- og silfurbúið sverð uppi í Hrafnkelsdal
nú nýlega og er sagt að hann hafi verið svo sorglega fávís að selja
Ernst apótekara það fyrir 12 kr. Eftir því sem af sverðinu er sagt