Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1971, Síða 104
104
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
því, að enn vanti heiti um þau nöfn, sem hvorki eigi við akra né
engi, en séu nöfn á mannaverkum í náttúrunni, s. s. vegum og brúm.
Óeðlilegt sé að telja þau til náttúrunafna. En hann leggur til, að þau
verði nefnd arkefakta á sænsku, sem mætti kalla mannvirkjanöfn á
íslenzku.
Harry Stáhl hefur í bók sinni kafla um landakortið og hvernig
hægt sé að nota þ^ð við örnefnarannsóknirnar. En hann varar þó
við ofnotkun þess og þeim hættum, sem geta falizt í notkun þess án
könnunar á staðháttunum sjálfum, því að nafngefendur höfðu ekki
kort við hendina, þegar þeir gáfu örnefni.
Meginhluti bókanna er annars umfjöllun um einstaka nafnliði
sænskra örnefna og einstök nöfn, og er bók Stáhls þó mun bundnari
Svíþjóð eingöngu en bók Pamps, sem oft nefnir hliðstæður í Noregi
og Danmörku. Framsetning Stáhls er nákvæmari um einstök nöfn.
Þar eru gefnar margar fróðlegar skýringar og veittar miklar upp-
lýsingar um eldri örnefnamyndir. En flokkun nafnanna er ekki eins
skýr og hjá Bengt Pamp, sem dregur betri meginlínur og nefnir að-
eins dæmi til að undirstrika flokkunina og skýra hana. Bók hins síðar-
nefnda er sýnilega miklu betur fallin til að nota við kennslu, því hún
kortleggur mun betur það efni, sem til umræðu er. Harry Stáhl gefur
hins vegar mörg dæmi um það, hve þessi fræði geta verið snúin og
að margar gildrur eru á veginum, sem auðvelt er að lenda í. Bók
Stáhls er fyllri og ekki skrifuð í eins knöppum stíl og bók Pamps
og því er vel hægt að hugsa sér að lesa hana í framhaldi af bók hins
síðarnefnda, til uppbótar og e. t. v. til nokkurrar skemmtunar. En
Pamp hefur betur tekizt að fanga efnið og draga fram það sem
skiptir máli.
Þessi kynning á nýjustu ritum um sænsk örnefni er hér birt til
að sýna, hvar þessi fræði standa nú og hvert menn hafa náð. Sænsk
örnefnafræði hefur náð langt í skýringum á einstökum nöfnum og
komizt þar að mikilvægum niðurstöðum, en aftur á móti hafa heild-
arrannsóknir orðið nokkuð út undan og því ekki fengizt heildarsýn
yfir efnið sem skyldi. Þessi rannsóknastefna, sem á sitt vígi í Upp-
sölum, kemur eðlilega skýrt fram í þessum bókum, einkum bók
Stáhls. En hvað sem um árangur þessa vísindastarfs má segja, verð-
ur ekki fram hjá því gengið, þegar fengizt er við íslenzk örnefni, og
því er á þessar bækur bent. Að vísu eru vandamálin hér um sumt
önnur en í Svíþjóð, en meginaðferðir fræðigreinarinnar og vísinda-
legar kröfur hljóta í stórum dráttum að vera hinar sömu þar og hér.
í janúar 1971.