Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1971, Page 108
ÞÓR MAGNÚSSON
STAURSETNING
í Eiríks sögu rauða, 6. kapítula, er merkileg frásögn í sambandi við
það, að lýst er andláti og greftran Þorsteins Eiríkssonar og annarra
manna, sem önduðust úr sótt þeirri, er herjaði í Lýsufirði í Yestri-
byggð. Segir svo, er lokið er að skýra frá furðum, sem urðu við dauða
Þorsteins: „Sá hafði háttur verið á Grænlandi, síðan kristni kom
þangað, að menn voru grafnir á bæjum, þar sem önduðust, í óvígðri
moldu. Skyldi setja staur upp af brjósti hinum dauða, en síðan,
er kennimenn komu til, þá skyldi upp kippa staurinum og hella þar
í vígðu vatni og veita þar yfirsöngva, þótt það væri miklu síðar.“
Staursetning mun hafa tíðkazt víðar um Norðurlönd í fyrstu
kristni. Þótt fyrrgreind heimild eigi við Grænland er líklegt, að að-
ferðin hafi einnig verið tíðkuð á Islandi, því að í Noregi er hún
þekkt. 1 Gulaþingslögum eru ákvæði um svipaða greftrunaraðferð,
en þar segir svo: „En ef prestur er eigi heima, þá skal þó lík niður
setja. En þá er prestur kemur heim, þá skal staura niður á kistu og
steypa helgu vatni í.“ (Norges Gamle Love, I, Christiania 1846,
bls. 14).
Þarna virðist þó ekki eiga að setja staurinn á kistuna áður en
mokað er ofan í, heldur skuli borað með staur niður á kistulokið, enda
er þess að gæta, að grafir munu að jafnaði ekki hafa verið teknar
djúpar.
Greinilegt er, að staursetning hefur verið framkvæmd þar sem
afskekkt var og ekki náðist til prests fljótlega til að jarðsyngja, eða
ef prestur var fjarverandi um stundarsakir. Þessa hefur einkum þurft
við í fyrstu kristni meðan prestar voru enn fáir og komu sjaldan á
afskekktar kirkjur, og ef til vill ekki langtímum saman, t. d. yfir
veturinn. Þetta hefur því verið hagkvæm ráðstöfun, rétt eins og