Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1971, Page 145
SKÝRSLA UM ÞJÓÐMINJASAFNIÐ 1970
145
þessar aðgerðir framkvæmdi Jón Friðbjarnarson smíðakennari á
Hólum.
Á Stóru-Ökrum þurfti að lagfæra nokkuð þekjur og veggi, en í
rauninni þarfnast húsin þar mikillar aðgerðar ef þau eiga að kallast
í góðu lagi. Márus Guðmundsson á Bjarnastöðum annaðist þessar
lagfæringar.
1 Laufási var framkvæmd allmikil viðgerð, einkum á veggjum og
þökum frambæjarins og á miðbænum. Er þetta liður í gagngerðri
endurbót á bænum, sem gera þarf á næstu árum. Sá Magnús Snæ-
bjarnarson bóndi á Syðri-Grund um þessa viðgerð.
Á Þverá í Laxárdal var enn haldið áfram að gera við gamla bæinn,
og miðar því verki allsæmilega, en það er seinunnið. Safnið hlaut á
árinu talsverð fjárframlög frá samvinnufélögum til viðgerðarinnar,
en þar var fyrsta kaupfélagið, Kaupfélag Þingeyinga, stofnað árið
1882. Kaupfélag Þingeyinga lagði þannig fram 40 þúsund krónur.
Samband ísl. samvinnufélaga 100 þúsund og Kaupfélag Borgfirðinga
25 þúsund krónur í þessu skyni. Létta þessi fjárframlög mjög undir
við endurbyggingu bæjarins, sem ella hefði að líkindum dregizt mjög
á langinn. Verkið var eins og áður unnið að mestu af heimamönnum,
bræðrunum Áskeli og Jóni Jónassonum.
Talsverð viðgerð var framkvæmd á Burstarfellsbænum, gerðir upp
veggir og dyttað að þökum. Þarf að yfirfara bæinn allan og laga enn
frekar á næstu árum, því að víða eru skemmdir að koma fram, sem
taka verður fyrir í tíma. Einar Gunnlaugsson bóndi á Burstarfelli sá
um framkvæmd verksins ásamt aðstoðarmönnum.
Ákveðið er nú að gera upp bæinn í Selinu í Skaftafelli, eins og
fyrr hefur verið minnzt á. Á árinu var stofuhúsið mælt og tekið
ofan og merktir þeir viðir, sem unnt verður að nota að nýju. Dvaldist
Gísli Gestsson safnvörður þar eystra nokkra daga um haustið og
annaðist verkið, en þeir bræður, Jón og Ragnar Stefánssynir í Skafta-
felli voru honum til aðstoðar og munu síðan taka til við endurbygg-
ingu bæjarins næsta vor. Viðgerð þessa bæjar verður mikið átak og
hlýtur að verða unnið í áföngum.
Á Keldum var lokið viðgerð baðstofunnar, en nauðsynlegt reyndist
að taka þakjárnið af og einangra undir því með plasti vegna mikils
slaga sem myndaðist, er torfeinangrunin var tekin. Einnig voru trað-
irnar hlaðnar upp að nýju og snyrtar, og fleira smálegt var lagfært
á staðnum. Þetta verk unnu þeir Jóhann G. Guðnason og Guðmundur
Jónsson, eins og árið áður.
Þá var Krýsuvíkurkirkja máluð utan og lagfærð lítið eitt.
10