Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1971, Qupperneq 146
146
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Mesta viðgerð á vegum safnsins var þó á Viðeyjarstofu, en þar
var haldið áfram sem frá var horfið árið áður. Beindist aðalátakið
að því að skeyta við þverbita og sperrur í norðurhlið hússins, en þar
voru miklar skemmdir og höfðu flestir bitarnir verið sagaðir sundur
og einnig sagað af sperrutánum, en umbúnaðurinn aftur hvergi nærri
svo tryggur né vel frágenginn, að sómasamlegt væri. Voru bitaend-
arnir sums staðar farnir að síga af þessum sökum. Það reyndist mjög
seinlegt og erfitt verk að fella við endana, en þó var að mestu lokið
við norðurhliðina.
Jafnframt þessu voru innréttingar á báðum hæðum hússins fjar-
lægðar og gerðar nákvæmar teikningar af húsinu, bæði eins og það
var við upphaf viðgerðar og eins og það hefur upphaflega verið.
Greinilegt er, að viðgerðin á Viðeyjarstofu verður mun meiri.en
álitið var í upphafi, enda er reynt að vinna hana svo vel sem kostur
er og þessu merka húsi hæfir. Bjarni Ólafsson kennari sá eins og áður
um framkvæmd hennar og Þorsteinn Gunnarsson arkitekt hafði um-
sjón með því, sem að arkitektastörfum laut.
Auk þessa hafði safnið hönd í bagga með viðgerðum og viðhaldi
nokkurra merkra bygginga, sem rétt þótti að lagfæra með varfærni
og reyna að forðast með því óhöpp af því tagi, sem sums staðar hafa
orðið við endurbætur gamalla húsa.
Á árinu var Þingvallakirkja rækilega endurbyggð, en hún var orðin
mjög hrörleg, enda hafði henni lítið verið gert til góða frá því hún
var reist 1859, nema hvað settur var nýr turn, ólíkur hinum gamla,
1907 og kirkjan þá jafnframt endurbætt nokkuð. Viðgerðin á sl.
sumri var unnin á vegum Þingvallanefndar og höfðu starfsmenn
húsameistaraembættisins umsjón með því, en þjóðminjaverði var
þó boðið að vera með í ráðum og varð það til þess, að kirkjunni var
í engu verulega breytt, þótt sumt færi nokkuð á annan veg en æski-
legt hefði talizt.
Grunnur kirkjunnar var treystur, gólfbitar, fótstykki og gólf end-
urnýjað, svo og hlutar af grindinni. Öll klæðning var endurnýjuð,
bæði það sem heilt var og skemmt, og turninn smíðaður upp að öllu
leyti, enda var hann orðinn mjög skemmdur af fúa. Var horfið að
því að hafa hann nákvæmlega eins og yngri turninn, þann sem Rögn-
valdur Ólafsson húsameistari teiknaði og settur var á kirkjuna 1907.
Að lokum var koparþak sett á kirkjuna, sem orka mun nokkuð tví-
mælis og hæfir reyndar varla húsi af þessari gerð, en koparþak er á
Þingvallabænum og mun það hafa ráðið úrslitum.
Þjóðminjavörður frétti af tilviljun, að verið væri að umbreyta