Andvari - 01.03.1969, Blaðsíða 30
28
I-IALLDÓR HALLDÓRSSON
ANDVARI
4 nýyrðasöfn, en auk þess Tæhniorðasafn Sigurðar GuÖmundssonar. Mest
af þessum tíma var ég starfsmaður nefndarinnar. Á fundum hennar, sem
voru tíðir og strangir, urðu til mörg nýyrði. Ef ég ætti að lýsa stuttlega af-
stöðu próf. Alexanders á nýyrðafundunum, yrði lýsingin eitthvað á þá leið,
að hann hafi verið ihaldssamastur allra, sem fundina sátu, um upptöku
tökuorða, en róttækastur um myndun nýrra orða. Hann bjó t. d. til sögnina
hanna (og afleidd orð), og birtist hún fyrst í Nýyrðum IV, Rvk. 1956. Ég
held, að öllum okkar, sem fundinn sátum — nema ef til vill tæknifræðingn-
um — hafi virzt djarft farið í sakirnar og ekki gert ráð fyrir, að sögninni yrði
langra lífdaga auðið. En okkur skjátlaðist. Hún er nú á hvers manns vörum,
hefir unnið sér þegnrétt í íslenzku máli.
I nánu samræmi við þetta var afstaða Alexanders til ættarnafna. Um
þetta mál fórust honum svo orð í Fréttum 10. júlí 1918:
„Flest íslenzk ættarnöfn t. d. fara í bága við fallegt mál og rétt. . .
Auk ættarnafna þessara, er hver og einn getur húið sér til eftir eigin
geðþótta og fengið viðurkenningu á í Stjórnarráðinu, er algengt hér
á landi, að menn smíða sér nöfn og heiti á persónum, hlutum og
hugtökum eftir eigin geðþótta án þess oft og tíðum að hafa hugmynd
um, hversu tungunni hæfi. En (sic!) það sannarlegt íhugunarefni,
hversu reisa megi rönd við vogestum þessum, er ráðast inn á haslaðan
völl íslenzkrar málhelgi."
Einkennilegt er það, að báðir afar Alexanders bera ættarnafn (Johnsen),
en faðir hans gerir það ekki. Má vera, að andúð Alexanders á ættarnöfnum
stafi frá heimili hans og afkomendur Einars Jónssonar hafi ekki verið sam-
mála í afstöðu sinni til þessa máls.
Hér slcal farið fljótt yfir sögu um afstöðu Alexanders til ættarnafna, en
hún hélzt óbreytt. Hann var ásamt fleirum skipaður 1. marz 1955 af Bjarna
Benediktssyni, nú forsætisráðherra, í nefnd til þess að endurskoða lög um
mannanöfn. Meirihluti nefndarinnar vildi leyfa upptöku ættarnafna, en
Alexander var andvígur þessu ákvæði. I séráliti hans segir m. a.:
„Flest íslenzk ættarnöfn eru málspjöll og munu þau, er tímar líða,
valda skemmdum á tungu vorri, t. d. á þann hátt, að tvö föll verði
notuð í stað fjögurra, eins og þróunin hefur orðið í öðrum germönsk-
um málum (nefnif., þolf. og þágufall eins, eignarfall með s-endingu),
eða jafnvel eitt. . .