Andvari - 01.03.1969, Blaðsíða 98
JAROB BENEDIKTSSON:
íslenzk orðabókarstörf á 19. öld
Stutt yjirlit1
Um aldamótin 1800 var sá maður illa settur sem leita vildi fræðslu um ís-
lenzka tungu í prentuðum bókum, hvort heldur var um íslenzka málfræði eða
orðaforða tungunnar að fornu og nýju. í málfræði var naumast um annað að
ræða en ágrip Runólfs Jónssonar skólameistara frá 1651, sem var næsta gagns-
lítið. Frá 17. öld voru einnig tvö orðabókarkver til á prenti: orðabækur þeirra
séra Magnúsar Ólafssonar í Laufási og Guðmundar Andréssonar. Báðar voru
þær eingöngu með þýðingum á latínu og komu því þeim einurn að fullum not-
um sem læsir voru á latneska tungu. Orðabók Magnúsar var harla lítil og tók
aðallega til fommálsins, og þá einkurn skáldamáls; orðabók Guðmundar var
nokkm stærri og hafði miklu meira efni úr samtíðarmáli; orðaforðinn var þó
mjög takmarkaður, og auk þess dó höfundur frá bókinni ófullgerðri, en hún var
gefin út að honum látnum. Um útgáfuna sá danski prófessorinn P. H. Resen,
en þekking hans á íslenzku var ærið takmörkuð, og hann virðist ekki hafa haft
neinn íslenzkan mann sér til aðstoðar við prófarkalestur, því að í þessari orða-
bók er einhver mesta auðlegð af prentvillum og mislestrum sem sögur fara af í
nokkurri bók eftir íslenzkan mann. Þessi bók var því allt annað en hentugt
hjálpargagn, enda þótt ennþá megi sækja þangað ýmsan fróðleik um íslenzka
tungu á 17. öld.
Nú var því engan veginn svo farið að orðabókarstörf hefðu verið látin ósnert
frá því að þessar bækur komu á prent. Hitt var heldur að margvísleg orðasöfn
og stórar orðabækur voru til í handritum, en allar áttu þær það sameiginlegt að
þær lágu óprentaðar í handritasöfnum eða í eigu einstakra manna, þar sem fáir
gátu haft þeirra nokkur not. Hér er þess enginn kostur að rekja þetta nánara,
aðeins tvö stærstu verkin af þessu tagi skulu nefnd: Elzt er orðabók Guðmundar
Ólafssonar, sem hann samdi fyrir Svía í lok 17. aldar, en hann dó frá henni
ófullgerðri 1695. Sú bók er geysimikil að vöxtum, en hefur aldrei verið notuð
að neinu marki, þar sem hún gleymdist með öllu og var lengi talin glötuð þangað
til fyrir fáum áratugum að Jón prófessor Helgason rakst á handritið í Konungs-
bókhlöðu í Stokkhólmi. Betur kunn og heldur meira notuð er hin mikla og stór-
1) Erindi flutt í Ríkisútvarpi 23. apríl 1967 sem þáttur í erindaflokki um sögu 19. aldar.