Andvari - 01.03.1969, Side 174
172
ARNÓR SIGURJÓNSSON
ANDVARI
öfgar, er hann ritaði í dagbækur sínar. En við, sem bjuggum í nágrenni Snorra
og þekktum jafnlyndi hans og prúðmennsku og þá friðsæld, er hann bjó við,
þekktum það líka, að í friðsældinni hafði hann gaman af að segja stórtíðindi frá
bardögum og mikla þá, svo sem íslenzk rimnaskáld kváðu forðum í kvöldfriði
sínum rímur um bardagamenn, sem höfðu 10—12 í höggi hverju. Eftir honum
var hermt, að sagt hefði hann við Jón son sinn: „Ég reyni ekki að sannfæra þig,
Jón, því að guð getur það ekki og andskotinn er langsamlega löngu hættur að
reyna það.“ I þetta var ekki annar skilningur lagður en að Snorri hefði gaman
af, að Jón kynni vel að halda á máli sínu. Er ég las dagbók Snorra eina nætur-
vöku í júní 1949, hafði ég vissulega af því ýmislegan fróðleik og mikið yndi,
enda var þar að finna margt skorinort um menn og málefni. Sá ég þar að vísu,
að þeir Huldumenn höfðu á fundum sínum eitthvað rætt um Benedikt Sveins-
son, en ekki skildi ég það svo, að þeir hefðu borið til hans heiftarhug eða lagt
hann í einelti, jafnvel ekki fyrir uppboð það fyrir norðan heiði, er Þorsteinn
Thorarensen segir frá og getur ekki réttlætt með öðru en því, að slík uppboð
muni fleiri hafa verið haldin og af öðrum sýslumönnum einnig. Finnst mér það
engin ofsókn á hendur Benedikt, heldur raun lögð á Steinþór Bjömsson, sem
virðist hafa vakið máls á uppboði þessu á Huldufélagsfundi, að honum var sett
það fyrir að sanna mál sitt og kæra, ef hann væri maður til.
Ef til vill hefur Þorsteinn fengið hugmynd sína um Huldufélagið sem mafíu
af því, að stundum lásu andstæðingar þess og utanfélagsmenn úr fangamarki
þess, Ó. S. & F., til þess að gamna sér: „Ofan með sýslumann og faktor.“ Þess er
ekki heldur að dyljast, að vissulega var þama um andstæðinga að ræða, þó að lítt
kæmi til bardaga. En rétt þykir að gera hér nokkra grein fyrir nafninu, Ófeigur
í Skörðum og félagar, af þessum sökum. Það er þá fyrst frá að segja, að þeir Jón
Stefánsson og Jón Jónsson á Arnarvatni völdu sér, þegar þeir hófu útgáfu sveita-
blaðsins Heimdallur 1874, rithöfundanöfnin Þorgils gjallandi og Ófeigur í Skörð-
um, og var hið síðara rithöfundarnafn Jóns Jónssonar. Það skyldi vera tákn þess,
að hann vildi lyfta merki hins sjálfstæða þingeyska bónda, er forðurn færði Guð-
mundi ríka á Möðruvöllum heim sanninn (þ. e. sanngirnina). Þegar Þjóðliðið
þingeyska tók að leysast upp, var Jón Jónsson orðinn alþingismaður og þótti lík-
legastur til forystu ungra manna í Þingeyjarsýslu, og líklega hefur hann haft for-
göngu um stofnun Huldufélagsins, þó að fyrir því hafi ekki fundizt ritaðar heim-
ildir. En það er til vitnis um, að jafnaldrar hans fylktu sér einmitt um hann, er
þeir stofnuðu þennan félagsskap, að þeir kölluðu félagsskapinn Ófeig í Skörðum
og (kompaní eða) félaga. Ekki hef ég fundið eða fengið heimildir um, hver var
formaður félagsins í fyrstu eða hvort hann var nokkur, en eftir að Jón flutti að